Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Segir ferð sína til Spánar ekki hafa verið óþarfa

Brynjar Níelsson
 Mynd: RÚV - Skjáskot
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að ferð sín til Spánar hafi verið fjarri því að vera óþörf þótt deila megi um hvort hún hafi verið bráðnauðsynleg. Hann hafi viljað létta undir með bróður sínum sem er búsettur á Spáni eftir að eiginkona hans fékk alvarlegt heilablóð fyrir ári síðan og gefa honum færi á að eiga stund með bróður þeirra sem glímir við Alzheimer „áður en hugurinn fer alveg.“

Þetta kemur fram í færslu Brynjars sem hann birtir á Facebook og er svar hans við ummælum Kára Stefánssonar í Kastljósi í gær.  Brynnjar var ekki eini Íslendingurinn sem sneri heim frá Spáni því í sama flugi og hann voru á þriðja hundrað Íslendinga. Þeir þurfa allir að vera í sóttkví heima hjá sér. 

Kári fór mikinn í viðtalinu í gærkvöld og sakaði þar Brynjar um að hunsa hagsmuni samfélagsins með ruddalegri aðferð. „ „Ég heyrði því fleygt að Brynjar Trump Níelsson hefði látið heyra frá sér frá Spáni þar sem hann sagðist hafa farið þangað og átt ekkert erindi til útlanda, og var á þann hátt að reka fingur framan í sóttvarnaryfirvöld sem mér finnst heldur vafasamt af kjörnum fulltrúa þjóðarinnar. Mér finnst það vera ruddaleg aðferð við að hunsa hagsmuni samfélagsins, hunsa tilraunir sóttvarnayfirvalda til að hlúa að heilsu fólksins í landinu, mér finnst það mjög ljótt.“

Kári var þar að vísa til tilmæla sóttvarnalæknis um að fólk forðist ferðir til útlanda að nauðsynjalausu.

Brynjar segir í færslu sinni að dass af hroka geti stundum verið nauðsynlegt til að koma viti í umræðuna. „En þegar hrokinn er bara hluti af óstjórnlegu frekjukasti missir hann marks og allur sjarmi hverfur. Þess vegna tapaði Donald Trump kosningunum síðast.“ 

Hann segir heiftina og reiðina hjá Kára í sinn garð augljóslega mega rekja til gagnrýni sinnar á aðgerðir yfirvalda í tengslum við frelsissviptingar á sóttkvíarhótelinu.

Þær hafi verið alltof viðtækar og auk þess ólögmætar. „Hvað sem því líður megum við ekki ganga lengra gegn réttindum fólks en nauðsynlegt er og lög heimila. Það er hins vegar hætt við að það vefjist ekki fyrir fólki að samþykkja slíkt þegar óttinn og hræðslan er alls ráðandi. Með aðgerðum sem skerða réttindi fólks meira en góðu hófi gegnir getum við nefnilega skaðað samfélagið meira en veiran sjálf.“

Hann segist ekki vera á móti sóttvarnaaðgerðum og hafi aldrei verið. „Geri engar athugasemdir við að vera í sóttkví heima hjá eftir þessa ferð og uni því vel. Stjórnvöld hafa að mestu leyti staðið sig vel og gera það vonandi áfram.“

Brynjar er ekki eini þingmaðurinn sem hefur brugðist við viðtali Kára í Kastljósi í gær.  Sigríður Andersen birti þetta tíst á Twitter-síðu sinni í gær.

Þá skrifaði Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, opið bréf til Kára sem birtist á Vísi í morgun þar sem hún hvatti hann til að tala ekki niður dómstóla landsins.

Það væri grundvallaratriði að valdhafar færu að leikreglum sem settar væru til varnar borgurum landsins. Kári sagði í Kastljósi að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur um sóttkvíarhótelið væri með ólíkindum og ekki væri hægt að draga annan lærdóm en að dómurum í héraðsdómi gæti orðið á mistök eins og öðrum.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV