Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Prýðisgripur úr ranni popprokks

Mynd með færslu
 Mynd: Elvar - Daydreaming

Prýðisgripur úr ranni popprokks

09.04.2021 - 10:52

Höfundar

Daydreaming er fyrsta breiðskífa huldumannsins Elvars sem þar sprettur fram fullskapaður úr höfði Seifs. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Arnar Eggert Thoroddsen skrifar:

Hver er Elvar? Ekki spyrja mig. Ég veit það ekki. Ég veit hins vegar að þegar ég var að skoða útgáfur ársins 2019 rakst ég á þessa plötu, Daydreaming. Og ég tók strax eftir gæðunum. Vel samið og flutt popprokk sem hefði getað sómað sér vel í hvaða útvarpsdagsspilun sem er og jafnvel á samningi fyrir lengra komna og leitandi popplistamenn. Þetta er Axel Flóvent án samnings. Ég fagna því að geta sett niður nokkur orð um plötuna en lög af henni hafa fengið að hljóma á Rás 2 undanfarin misseri og ekki að undra.

Umslagshönnun, mannskapur og annað, allt er þetta tipp topp en engin eftirfylgni átti sér greinilega stað á sínum tíma. Platan liggur því í iðrum internetsins eins og falinn demantur, bíðandi eftir því að einhver finni sig. Og gott að svo varð, því að prýðisgripur er þetta. Listi yfir „verkafólkið“ í kringum plötuna útskýrir í raun allt. Pétur Ben upptökustýrir og spilar á flest hljóðfæri, Arnar Gísla trommar og Magnús Árni Øder Kristinsson hljóðblandar. Glenn Shick hljómjafnar svo en hann hefur komið að ótal verkefnum af þeim toganum, fjölmörgum íslenskum en risastórum erlendum líka.

Tónlistin öll er hin þekkilegasta, rennur ljúflega áfram og nuddar eyrun án þess þó að vera ódýr. Það er hárfínt jafnvægi í gangi. Hæfilega aðgengilegt en broddar gera vart við sig á völdum stöðum. Ég hugsa pínu til Tilbury sem spilaði lúmskt popprokk á sínum plötum. Korter í gáfumannapopp en samt kjörið í bakgrunninn.

Daydreaming rúllar að mestu á þennan ljúfa hátt sem ég lýsi. Coldplay/Kent-legt popp og söngrödd Elvars er þægileg og natin. Stundum verður rennslið vissulega full eintóna og maður hættir að taka eftir. Uppbrot eru því vel þegin. Looking for Higher Ground inniheldur sæmilega óheft gítargarg og Share a Feeling er hálfgert sýrupopp. Sýnir að Elvar er fjölhæfari en heildarmyndin gefur til kynna.

Þannig að, vel gert og platan stendur eins og ég lýsi. Og ég ætla ekkert að vera að lúsleita að upplýsingum um manninn. Það er eitthvað spennandi við þessa dulúð alla...