Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Nærri jafn mörg smit á landamærum og innanlands

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Frá 1. febrúar til 1. apríl greindust næstum því jafn mörg smit á landamærunum og innanlands. Þetta kemur fram í minnisblaði smitrakningateymis almannavarna sem sent var heilbrigðisráðuneytinu þann 7. apríl. Nærri helmingur smitanna á landamærunum greindust í fyrstu skimun, 29 í seinni skimun og 20 eftir að hafa pantað sér sýnatöku áður en sóttkví lauk.

Minnisblaðið er hluti af gögnum sem fréttastofa fékk afhent frá heilbrigðisráðuneytinu í tengslum við vinnslu á reglugerð sem tók gildi 1. apríl en hefur verið felld úr gildi og svo núverandi reglugerðar.

Á þessu tímabili greindust alls 202 kórónuveirusmit; 105 á landamærunum og 97 innanlands.

Í minnisblaðinu kemur fram að rakning og raðgreining hafi leitt í ljós að öll kórónuveirusmitin innanlands á þessu tímabili tengdust smitum af landamærum með einum eða öðrum hætti.   Þrjár stórar hópsýkingar hafi komið upp á þessum tíma auk smærri hópa sem myndast hafa út frá smitum á landamærum. 

Stærsti hópurinn telur 48 smit og á annað þúsund þurftu að fara í sóttkví. Smitrakningateymið segir að veirutegundin hafi ekki greinst hér á landi áður og því megi ganga út frá því að smitið megi rekja til landamæranna.

Næst stærsti hópurinn telur 12 smit. Þar greindist einstaklingur í seinni sýnatöku eftir komu til landsins frá Póllandi.  Í minnisblaðinu kemur fram að við smitrakningu kom í ljós að viðkomandi hafði ekki haldið fullnægjandi sóttkví og því varð nokkur útbreiðsla.  

Þriðja hópsýkingin telur 11 smit. Þar greindist einstaklingur í seinni sýnatöku eftir komu frá Albaníu. Næstu daga greindust fimm á höfuðborgarsvæðinu utan sóttkvíar og raðgreining leiddi í ljós að þau tengdust öll þessu landamæratilfelli. „Smitrakning sýndi að ekki hafi verið haldin fullnægjandi sóttkví við komu til landsins og smitið því náð að dreifa sér tiltölulega hratt.“

Smitrakningateymið segir að enn sé að greinast fólk með þetta afbrigði í samfélaginu án þess þó að tengsl þeirra á milli séu önnur en veirufræðileg. Þar sem auknar samkomutakmarkanir höfðu tekið gildi þurftu aðeins 50 að fara í sóttkví.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV