Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Líkur á að nýir gígar geti myndast í Geldingadölum

Mynd með færslu
 Mynd: Ljósmynd/Almannavarnir - RÚV
Ekki eru miklar líkur á að gasmengun vegna jarðeldanna á Reykjanesskaga verði jafnmikil og í eldgosinu í Holuhrauni en það er ekki útilokað. Þetta segir Elín Björk Jónasdóttir, hópstjóri veðurþjónustu á Veðurstofu Íslands. Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, segir að enn sé möguleiki á að gossprungan geti lengst, og þá frekar til norðurs en suðurs, og því geta myndast nýir gígar í Geldingadölum.

Þetta var meðal þess sem kom fram á upplýsingafundi almannavarna vegna eldgossins á Reykjanesskaga. 

Elín Björk sagði að fólkið sem væri nánast með eldgosið í bakgarðinum gæti sofið rólegt á nóttunni. Á Veðurstofunni væri vakt allan sólarhringinnsem fylgdist sérstaklega með gosinu. Það færi því ekki framhjá neinum ef upp kæmu hættulegar aðstæður, og íbúar yrðu látnir strax vita. 

Hún benti á að gasið kæmi ekki bara úr gígunum þremur heldur líka hrauninu. Þess vegna væri mikilvægt að fólk sem skoðaði gosstöðvarnar héldi sig uppi í brekkunum og væri með vindinn í bakið. 

Ekki væru miklar líkur á að gasmengunin yrði jafnmikil í byggð og varð í gosinu í Holuhrauni en það væri samt ekki útilokað enda væri byggð mun nær gosinu nú.

Magnús Tumi sagði að áfram væri möguleiki á að nýir gígar opnuðust og að sprungan gæti lengst, þá frekar til norðurs en suðurs. „Þess vegna er möguleiki að nýir gígar geti myndast í Geldingadölum.“

Þetta myndi ekki gerast hratt heldur kæmi fyrst gas og gufa áður en kvika færi að renna. Ef þetta gerðist ætti að fólk að fara til hliðar og hlaupa. „Aðalatriðið er að girða fyrir þessa hættu með því að koma í veg fyrir að fólk fari um þau svæði þar sem kvikan á skammt eftir því það eru engin merki sem hægt er að greina sem vara við þessu. Það þarf svo lítið til og þótt líkurnar séu litlar þá eru Geldingadalir slíkur staður.“

Magnús Tumi sagði að gosið á Reykjanesskaga væri um margt óvenjulegt því yfirleitt væri eldgos öflugast í byrjun en síðan drægi úr því. Hann bað fólk um að umgangast nýrunnið hraunið af virðingu því brattar hraunbrúnir væru óstöðugar. Þá ætti fólk aldrei að fara ofan í lokaðar lægðir, nálgast gosið alltaf með vindinn í bakið og fara ekki of nálægt. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV