Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Ísland vel búið að mæta markmiðum gervigreindarstefnu

Mynd með færslu
 Mynd: Landinn - RÚV
Ísland er talið vera í góðri aðstöðu til að uppfylla forsendur nefndar um ritun gervigreindarstefnu. Nefndin hefur skilað Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra tillögum að stefnunni sem hún kynnti á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.

Það að íbúar landsins geti athafnað sig í umhverfi þar sem gervigreind er nýtt og styrkar stoðir lýðræðis eru meðal þeirra forsendna sem nefndin segir að uppfylla beri og að mannréttindi skuli æ höfð að leiðarljósi við innleiðingu og notkun gervigreindar.

Eins þurfi að huga að tæknilegum áskorunum, ekki síst þeim sem snerta öryggi. Gervigreind þarf að mati nefndarinnar að vera í allra þágu en settar eru fram tillögur að þeim gildum sem byggja ætti þróun, innleiðingu og notkun gervigreindar á, ásamt siðferðislegum viðmiðum.

Hinu opinbera er ætlað að styðja við stafræn umskipti atvinnulífsins og því fjallaði nefndin um þær aðgerðir og áherslur sem geti stutt við þá umbreytingu.

Jafnframt er rík áhersla lögð á læsi og gagnrýna hugsun, uppbyggingu sérhæfingar, fjölgun tæknimenntaðra og möguleika við notkun gervigreindar til kennslu.

Nefndin kallaði fjölmarga til samráðs við sig auk þess sem tillögur hennar voru til umfjöllunar í samráðsgátt stjórnvalda. Forsætisráðherra leggur gervigreindarstefnuna fram sem skýrslu á Alþingi.