Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Geta ekki tryggt gestum útivist að sinni

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Rauði krossinn og Sjúkratryggingar Íslands segjast ekki geta tryggt rétt gesta sóttvarnahúsa til útivistar, enn sem komið er og biðja um skilning gesta.  Unnið sé að því að uppfylla reglugerðina en það krefjist breytts verklags og aukins mannafla. Umsjónarmaður sóttvarnahúsa segir óljóst hvort hægt verði að vinna eftir reglugerðinni. Nýja reglugerðin einfaldar aftur á móti störf lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli.

 

Breyta verklagi og ráða inn fólk

Fulltrúar Rauða krossins og Sjúkratrygginga Íslands leita nú leiða til að uppfylla reglugerðina. Í sameiginlegri tilkynningu sem félagasamtökin og stofnunin sendu frá sér rétt fyrir hádegi kemur fram að vinnan snúi einkum að því að tryggja útvist án þess að skerða sóttvarnir. Þetta kalli á verulega breytt verklag og aukinn mannafla en allt kapp sé lagt á að vinna þetta hratt.

Treysta á skilning

Í tilkynningunni segir að á meðan á vinnunni standi verði því miður ekki hægt að tryggja gestum tækifæri til útivistar enda myndi það bitna á sóttvarnarráðstöfunum og ógna öryggi gesta. Rauði krossinn og Sjúkratryggingar treysti á skilning gesta og samfélagsins alls á þessum tímabundnu óþægindum. Frekari frétta sé að vænta einhvern tímann á næstu tveimur sólarhringum. 

Vilji alls ekki fá hópsmit 

Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður farsóttarhúsa Rauða krossins segir auðveldara að tryggja útivist á sóttvarnahúsinu á Egilsstöðum, en að á Fosshótelinu í Þórunnartúni sé það þrautin þyngri. Enginn samgangur megi vera á milli fólks hvort sem það er að fara af hótelinu, skrá sig inn eða fara út í göngutúr. Það þyrfti að skrá fólk út og inn og tryggja að það haldi sig fjarri öðrum, fari ekki á leikvelli eða matsölustaði. „OKkar aðalsýn er að viðhalda sóttvörnum svo að hér sé ekki fólk að smitast sem væri hugsanlega að umgangast hvert annað. Ef smit kemur upp meðal hópsins þá bæði lengir það sóttkví annarra sem hafa veri í snertingu við þá og gæti dreift smitum. Það viljum við alls ekki, við viljum alls ekki að það komi upp hópsmit inni á þessum úrræðum, hvorki gestanna vegna né starfsfólksins.“ 

Það flæki málið enn frekar að nú eigi allir sem eiga að sæta sóttkví eftir komuna til landsins, og geta ekki verið í húsnæði á eigin vegum, að fara í sóttvarnahús, óháð því hvort þeir koma frá eldrauðu áhættusvæði eða ekki. Til að mega vera í svokallaðri  heimasóttkví þarf fólk að vera alveg aðskilið frá öðrum, með sér salerni og eldunaraðstöðu. Ef þetta er ekki uppfyllt er tvennt í stöðunni, sóttkví í sóttvarnahúsi eða að allir heimilismenn fari líka í sóttkví. 

Minnkar flækjustigið á Keflavíkurflugvelli

Nýja reglugerðin auðveldar aftur á móti störf lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli. Í morgun lenti vél frá Boston, þar voru allir með bólusetningarvottorð en eftir hádegi koma vélar frá Danmörku og Póllandi. Sigurgeir Sigmundsson yfirlögregluþjónn, segir að fólk sé upplýst um reglurnar og að nú sé enn betur fylgst með því að forskráningar farþega um hvar þeir hyggist dvelja í sóttkví haldi vatni. Að mestu leyti einfaldi nýja reglugerðin landamæragæsluna - því ekki þurfi lengur að eyða púðri í að  greina hvaðan farþegar séu að koma upphaflega. Aðalmálið sé að sóttkvíaráformin séu trúverðug. 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV