Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Fimm frískandi og fjörug fyrir helgina

Mynd með færslu
 Mynd: Artist Facebook - Truth & Rights

Fimm frískandi og fjörug fyrir helgina

09.04.2021 - 13:40

Höfundar

Það er boðið upp á sumarlegan tónlistarkokteil í Fimmunni að þessu sinni þar sem vorið er á næsta leyti hjá þeim allra bjartsýnustu. Við fáum hitabylgju frá Julien Baker, aparassgatið Ian Brown með derring, nýja sálartónlist frá VC Pines og The Jungle, síðan endum við þetta með að senda kovid-kaldar kveðjur frá Fred again... ásamt The Blessed Madonna sem vilja komast á dansgólfið.

Julien Baker - Heatwave

Það er ekkert sérlega langt síðan að tónlistarkonan Julien Baker var hér í Fimmunni með lag sitt Faith Healer en nú er það Heatwave af plötu hennar Little Oblivions. Á plötunni færir hún sig frá mjúku og lífrænu indí-folki yfir í rafmagnaðri rokksálma þó það sé nú kannski ekki mjög áberandi í laginu Heatwave.


Ian Brown - Truths & Rights

Aparassgatið Ian Brown hefur verið áberandi í bóluefnaumræðunni í Bretlandi og notað Twitter-reikning sinn óspart til að berjast á móti bólusetningum. Blaðamenn NME vilja meina að ábreiða hans af Johnny Osbourne-snilldinni Truths & Rights sé framhald af þessari baráttu kappans en Ian hefur alveg átt það til að vera frekar vankaður eins og flestar alvöru rokkstjörnur á köflum.


VC Pines - Smoke Without Fire

Tónlistarmaðurinn VC Pines er frá London og partur af Neo Soul-senunni í Englandi sem hefur verið mallandi síðan á níunda áratugnum og gefið okkur listamenn eins og Sade, Amy Winehouse, Jamiroquai og í nútíðinni Sault, Michael Kiwanuka og Arlo Parks svo einhver séu nefnd. Hvort nýliðinn VC Pines eigi eftir að ná þannig hæðum er alls óvíst en fyrsta lagið hans Smoke Without Fire er að byrja vekja athygli í bresku útvarpi.


Jungle - Keep Moving

Breski bleiknefja dúettinn Jungle er eins VC Pines úr Neo Soul-senunni í London en komnir töluvert lengra. Þriðja plata þeirra Loving In Stereo er væntanleg í ágúst og fylgir eftir plötu þeirra Jungle frá 2014 sem var útnefnd til Mercury-verðlauna og For Ever sem kom út 2018 á XL Recording.


Fred again.. ásamt The Blessed Madonna - Marea (We’ve Lost Dancing)

Undanfarið ár hefur verið stórt hjá Fred again... og The Blessed Madonna þar sem þau hafa skotist inn í meginstrauminn með lög sín og samstörf við Dua Lipa, FKA twigs og Romy. En á dansgólfinu una þau sér best eins og Hemmi Gunn og lagið Marea fjallar einmitt um það að einn daginn hætti þessi ömurlega pest og við komumst aftur á dansgólfið.


Fimman á Spottanum