Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Bandaríkin íhuga að senda herskip á Svartahaf

09.04.2021 - 04:33
epa04654644 A handout photograph made available by the press office of the US embassy in Bulgaria showing the Turkish frigate Turgut Reis (L) and Spessart (R) tanker of the German Navy at the Black Sea port of Varna some 450 km from Sofia , Bulgaria, 08
 Mynd: EPA - Press office US embassy Bulgaria
Bandaríkjastjórn íhugar að senda herskip á Svartahaf á næstu vikum. Fréttastofa CNN hefur þetta eftir hátt settum starfsmanni varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna. Skipin yrðu send til að sýna Úkraínu stuðning vegna aukinna hernaðarumsvifa Rússa nærri landamærum Úkraínu.

Bandaríski sjóherinn æfir reglulega á Svartahafi. Ef herskip yrðu send þangað á næstunni yrðu það skýr skilaboð til stjórnvalda í Kreml um að Bandaríkin fylgist grannt með gangi mála, hefur CNN eftir embættismanninum. Bandaríkin verða að láta vita af tilfærslum inn á Svartahaf með minnst fjórtán daga fyrirvara. Það er samkvæmt samkomulagi frá árinu 1936 um stjórn Tyrkja á sundunum sem liggja að Svartahafi. CNN kveðst ekki hafa heimildir fyrir því hvort búið sé að sækja um slíkt leyfi.

Stjórn Joe Bidens Bandaríkjaforseta hefur lýst áhyggjum sínum af hernaðarbrölti Rússa austan við Úkraínu. Fleiri vestrænir leiðtogar hafa látið áhyggjur sínar í ljós. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hringdi í Vladimír Pútín Rússlandsforseta í gær þar og hvatti hann til þess að minnka hernaðarumsvif Rússa við landamærin að Úkraínu. Í tilkynningu frá Kreml eftir samtalið sagði að Pútín hafi bent á að aðgerðir úkraínska hersins að undanförnu hafi verið ögrandi.

Rússar reiðubúnir

Átök brutust út í austanverðri Úkraínu árið 2014 þegar Rússar innlimuðu Krímskaga. Samið var um vopnahlé í júlí í fyrra en þrátt fyrir það hafa brotist út átök þar sem stórtækum vopnum hefur verið beitt.

Úkraínumenn saka Rússa um að styðja við aðskilnaðarsinna í austanverðu landinu. Því hafa rússnesk stjórnvöld neitað. Fréttastofa BBC hefur þó eftir  Dimitry Kozak, nánum ráðgjafa Pútíns, að Rússar séu reiðubúnir að leggja aðskilnaðarsinnum lið ef Úkraínuher ræðst af fullum krafti á þá. Hann sagði það alfarið velta á umfangi árásarinnar. Þá bætti Kozak því við að stríðsátök gætu orðið upphaf endaloka Úkraínu, „ekki skot í fótinn, heldur í andlitið," hefur BBC eftir honum.