Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Aðgerðum ber að vera löglegar, gegnsæjar og tímabundnar

Mynd með færslu
 Mynd:
Berglind Svavarsdóttir formaður Lögmannafélags Íslands segir viðbrögð heilbrigðisyfirvalda og aðila innan heilbrigðiskerfisins við niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur um að lagastoð skorti fyrir reglugerð um dvöl fólks frá áhættusvæðum í sóttkvíarhóteli, hafa um margt verið sérstök og umræðan þeim ekki til framdráttar.

Þetta kemur fram í aðsendri grein Berglindar á Vísi í dag. Hún segir viðbrögðin undirstrika enn frekar nauðsyn hlutverks lögmanna og dómstóla að standa vörð um réttarríkið.

Hún áréttar sömuleiðis að lög þurfi að vera framkvæmanleg, skiljanleg, aðgengileg, framvirk og almenn. Jafnframt sé brýnt að að tryggja aðgengi borgaranna að réttlátri málsmeðferð fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstólum.

Aðgerðir stjórnvalda um allan heim til að sporna við útbreiðslu kórónuveirufaraldursins hafi oft varðað mikil inngrip í stjórnarskrárvarin réttindi fólks.

Viðurkennt sé að heildarhagsmunir kunni í sumum tilfellum að ganga framar hagsmunum einstaklinga en þrátt fyrir það þurfi aðgerðir stjórnvalda að rúmast innan laga, vera gegnsæjar og tímabundnar.

Aðgerðirnar þurfi einnig að uppfylla skilyrði um meðalhóf og nauðsyn. Tryggt verði að almenningur njóti verndar og öryggis með því að hafa lýðræði, mannréttindi og réttarríkið að leiðarljósi. Það skipti aldrei eins miklu máli og þegar ógn steðji að.