Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vel útfærð Skýjaborg í Kópavoginum

Mynd: Skýjaborg / Gerðarsafn

Vel útfærð Skýjaborg í Kópavoginum

08.04.2021 - 13:36

Höfundar

Ólöf Gerður Sigfúsdóttir fjallar um sýninguna Skýjaborg í Gerðarsafni þar sem fjórir íslenskir samtímalistamenn sýna verk sem tengjast Kópavogi.

Ólöf Gerður Sigfúsdóttir skrifar:

Þegar pistillinn var fluttur, 30. mars, hafði Gerðarsafn lokað vegna sóttvarnarráðstafana. Safnið opnaði að nýju 6. apríl.

Það er dálítið óheppilegt að sýningin sem ég fjalla um í þessum pistli er í safni sem er lokað akkúrat um þessar mundir. Á sama tíma er það orðið týpískt fyrir tímana sem við lifum á. Meira að segja menningin er hverful, og aðgengi að andlegri og vitsmunalegri næringu síður en svo sjálfsagður hlutur. En um leið og Gerðarsafn opnar aftur mæli ég með að sjá sýninguna Skýjaborg, sem stendur yfir í safninu til 15. maí. Þarna eru samankomnir fjórir listamenn sem hver um sig hefur fram að færa áhugaverða nálgun til heildarkonsepts sýningarinnar, sem er að varpa ljósi á hugmyndina um stað – hvað það þýðir að tilheyra stað, byggja stað, búa á stað, lifa stað. En þó ekki hvaða stað sem er, heldur er hér verið að fjalla um einn tiltekinn stað, Kópavog.

Sýningarstjórarnir tveir, þær Brynja Sveinsdóttir og Klara Þórhallsdóttir, hafa hér valið fjóra afar frambærilega listamenn til að ávarpa þessa hugmynd. Þetta eru þau Eirún Sigurðardóttir, Berglind Jóna Hlynsdóttir, Bjarki Bragason og Unnar Örn Auðarson, listamenn sem hver á sinn hátt nálgast viðfangsefnið með sínu sterku höfundareinkennum. Öll vinna þau ný verk fyrir sýninguna, sem saman mynda áhugaverða heild í samhengi við bæjarfélagið Kópavog.

Mynd með færslu
 Mynd: Anna Karen Skúladóttir - Gerðarsafn
Verk eftir Unnar Örn Auðarson.

Unnar Örn vinnur með Staðfræði gleymskunnar, þar sem greina má draumsýnir og hillingar sem gefa til kynna rofið milli áætlunar um stað annarsvegar og hinsvegar raunverulegs staðar. Unnar Örn skoðar hér stóra samhengið og fjallar um þau kerfi sem maðurinn hefur komið sér upp í viðleitni sinni til að búa til borgarrými: að kortleggja, mæla, teikna, hanna og loks efnisgera í raunverulegt borgarrými. Verk Unnars Arnar benda á hvernig þessi kerfi borgarskipulagsins hafa afgerandi áhrif á það hvernig við borgararnir hegðum okkur í borgarrýminu og stýra leið okkar í gegnum það. Þessi víða nálgun Unnars er gott upplegg að sýningunni og þess vegna fer vel á því að raða upp verkum hans sem einhverskonar umgjörð utan um önnur verk í öðrum salnum. Þannig mætir okkur þessi rammi sem minnir okkur á stóru myndina sem síðan er fyllt inn í með verkum annarra listamanna. Frá víðu sjónarhorni Unnars Arnar drögumst við inn í persónulegri rými eins og garða og æskuheimili, verk sem hafa staðbundna og persónulega snertifleti við Kópavog sem stað.

Mynd með færslu
 Mynd: Anna Karen Skúladóttir - Gerðarsafn
Verk Bjarka Bragasonar.

Verk Bjarka, Áform, er hluti af margra ára rannsóknarferli hans á húsagarði ömmu hans og afa, sem voru frumbyggjar á Kársnesinu á fimmta áratugnum þegar ræktunarland tók að umbreytast í byggt ból. Hann skoðar sögu garðsins út frá þróun byggðarlagsins og eigendasögu garðsins sjálfs. Í verki hans hér má sjá flennistóra loftmynd af garðinum, sem prentuð hefur verið á fánaefni. Myndin hangir yfir rá í loftinu og flæðir niður báðumegin, hún er mjúk og gegnsæ, dálítið eins og gluggatjöld. Hér beinir hann sjónum sínum að þeim breytingaum sem verða á garðinum þegar viðhaldi sleppir, en Bjarki vinnur gjarnan með skrásetningu og söfnun yfir lengri tímabil og skapar úr því frásagnir sem gefa náttúrulegum fyrirbærum og ferlum sviðið. Með þessari útfærslu vísar Bjarki, líkt og Unnar Örn, til verkfæra skipulagsfræðinga og arkitekta, þ.e. loftmyndarinnar, og bendir um leið á tilhneigingu mannsins til yfirráða eða stjórnunar á umhverfinu, en loftmyndir eru einmitt til þess gerðar að ná utan um það ekki er hægt með eigin líkama.

Mynd með færslu
 Mynd: Anna Karen Skúladóttir - Gerðarsafn
Verk Eirúnar Sigurðardóttur.

Verk Eirúnar færa okkur svo enn lengra inn í persónuleg tengsl við íverustaði, en í verkinu Heimahagar hefur hún saumað út mynd af Engihjallablokkinni, byggingu sem hún ólst upp. Í öðrum verkum saumar hún út ástand sitt og minningar frá ólíkum tímabilum lífs síns. Þetta eru heillandi myndir, litríkar með flæðandi formum sem virka eins og úrvinnsla úr æskuminningum eða markerandi tímbilum lífs hennar. Á sumum þessara er bakhliðin sýnileg, með flækjum og lausum endum sem potast í hvern annan, rétt eins og fjölskyldutengsl geta gjarnan orðið. Einnig setur hún saman litla skúlptúra sem samanstanda af áhugaverðum andstæðum hins viðkvæma og hins varanlega, þar sem hún blandar saman byggingarefnum og steypustyrktarjárnum við mjúka þræði og garn.

Mynd með færslu
 Mynd: Anna Karen Skúladóttir - Gerðarsafn
Verk Berglindar Jónu Hlynsdóttur.

Loks er það verk Berglindar Jónu, Hamraborgarrásin, sem er afar upplýsandi fyrir tímabil sem sennilega fáir kannast við í sögu Kópavogsbæjar. Á tíunda áratugnum var starfrækt metnaðarfull staðbundin sjónvarpsstöð í Hamraborginni (sjálfri byggingunni sem sagt), sem var einskonar lýðræðilegur vettvangur íbúanna til skoðanaskipta og umræðu um málefni hverfisins. Þannig voru húsfélagsfundir haldnir á rásinni, og skilaboð send út um ýmisskonar hegðunar- og umgengnisreglur til allra þeirra sem vildu „vinna að framgangi framfara og farsældar“. Þarna er forvitnilegur heimur, í raun heill heimur út af fyrir sig, sem áhugavert er að sökkva sér í. Berglind Jóna beinir hér athyglinni að samtölunum og sögunni og skoðar hvernig borgarrýmið mótar samfélagið sem byggir það. Hún sýnir okkur þennan heim nokkurn veginn hráan eða mjög nálægt upprunalegri mynd, með útprentuðum skjáskotum af útsendingum og með því að sýna upptökur af rásinni í fullri lengd á sjónvarpsskjá. Þannig komumst við í snertingu við þær heimildir sem hún vinnur með, án þess að hún eigi mikið við þær. Auk þessa hefur hún gert stóra innsetningu sem einskonar endurgerð á sviðsmynd fyrir húsfundina, þar sem hægt er að kynnast nánar þessu merkilega samfélagslega fyrirbæri sem Hamraborgarrásin var.

Um leið og listamennirnir fjórir vinna verk sín í ólíka miðla og í raun út frá afar ólíkum forsendum, eru það aðferðirnar sem þau notast við sem sameinar þau, og sennilega einmitt það sem gerir sýninguna að svo sterkri heild sem hún er. Hér beita þau rannsóknarferðum myndlistarinnar, aðferðum sem byggja á skoðun, leitun, ígrundun, greiningu, úrvinnslu og sköpun. Þau safna upplýsingum og efni sem ýmist situr í heimatilbúnum minningabönkum, persónulegum gagnsöfnum, héraðsskjalasöfnum eða öðrum opinberum arkívum.

Heimsókn mín á safnið færði mér ekki eingöngu þá andlegu næringu sem góð myndlist gerir, heldur varð ég margs vísari um Kópavog sem byggðarlag. Það er þá eitthvað meira þarna en Smáralindin og Smiðjuvegurinn. Það er snjallt hjá Gerðarsafni að beina athyglinni að nærumhverfinu og skipulagsmálum, en safnið sjálft situr jú hátt í Hamraborginni, sem er einhverskonar miðja Kópavogs, og um leið tenging við önnur bæjarfélög. Það verður áhugavert að sjá hvort listamenn úr Kópavogi eða safnið sjálft muni láta sig varða nýtt og umdeilt skipulag fyrir Hamraborgina, umræðu sem staðið hefur nokkuð hátt undanfarin misseri og varðar íbúalýðræði og réttindi íbúa til að hafa áhrif á nærumhverfi sitt. Hér er því kjörið tækifæri fyrir safnið að standa yfir umræðudagskrá um skipulagsmál í tengslum við sýninguna. En söfn, og sér í lagi listasöfn, eru einmitt hentugur vettvangur til að eiga í skoðanaskiptum og rökræðum um umdeild málefni, ekki bara í sögulegu endurliti eins og þessi sýning er, heldur einnig brennandi málefni líðandi stundar.

Tengdar fréttir

Pistlar

Óljósar tengingar heildar og hluta

Pistlar

Aðdráttarafl hins framandi

Pistlar

Í anda Nýló

Pistlar

Tengsl áþreifanlegs og óáþreifanlegs menningararfs