Útbúa kort fyrir fólk sem ætlar að skoða eldgosið

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Almannavarnir og Veðurstofan ætla að búa til kort og taka saman upplýsingar um hættur sem kunna að steðja að fólki sem hyggst skoða eldgosið á Reykjanesskaga. Þetta kom fram á fundi Vísindaráðs Almannavarna í dag. Litlar breytingar hafa orðið á gasmyndun eftir breytingar á eldgosinu síðustu daga.

„Fyrst og fremst ræðum við atburði frá síðasta fundi og þá náttúrulega helst þessar nýju opnanir norðaustan við Geldingadali,“ segir Björn Oddsson, jarðeðlisfræðingur hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, um fundinn í dag. „Og síðan hvort þetta sé aukning við rúmflæðið eða kvikuflæðið sem er að koma upp. Og síðan þær hættur sem þessu fylgja. Veðurstofan hefur verið að vinna að hættumati fyrir svæðið, þar sem er verið að horfa til aðgengis að því og öryggis fyrir fólk sem fer þarna um og er að skoða. Og í framhaldi af því ætlum við að taka saman kort og upplýsingar yfir þær hættur og koma því á framfæri.“

En voru einhverjar sérstakar niðurstöður af fundinum?

„Nei í rauninni ekki. Þetta er atburðarás sem er búin að ganga yfir núna í nokkuð langan tíma sem endaði með þessu eldgosi. Við förum yfir reglulegar mælingar og þær benda til þess að það sé lítil breyting á samsetningu á gasi og öðru, sem segir okkur að uppruni kviku sé sá sami og að þetta sé framhald á þeim atburðum sem við höfum verið að fylgjast með.“

Hratt og örugglega

Hvað með þá sem hafa hug á að skoða gosið á næstu dögum, hafið þið einhver skilaboð til þeirra?

„Það er bara fyrst og fremst að gæta öryggis. Eins og við höfum áður nefnt, og það eru þessar sviðsmyndir sem við höfum horft til og eru að ganga eftir, að nýjar sprungur geta myndast yfir ganginum og þá helst á þessu svæði sem nær suðvestur frá Geldingadölum, eða í rauninni alveg við Geldingadali og svo rétt norðaustur fyrir gíginn sem myndaðist í annarri sprunguopnun. Og það er bara mjög varhugavert að vera á þessu svæði, akkúrat næst sprungunum og svo hrauninu sem rennur þar út frá. Þannig að þeir sem hafa hug á að fara að skoða, þeir ættu að halda sig uppi á hryggjum og fylgja þeim ráðleggingum og viðvörunum sem koma frá Veðurstofunni og lögreglunni á Suðurnesjum.“

Það hefur verið bent á að gönguleiðin er í beinni stefnu við gossprunguna, hafið þið einhverjar áhyggjur af því?

„Gönguleiðin sjálf liggur ekki meðfram gossprungunni, hún fer upp úr Nátthagakrikanum og henni var breytt af lögreglunni á Suðurnesjum og björgunarsveitunum, sem leggja til öruggustu leiðirnar. Og það þarf bara að skoða það reglulega, með breytingum á svæðinu, hvort þær gönguleiðir sem eru í gildi séu ennþá öruggar. Ef það er talið að það þurfi að breyta þeim, þá er það gert hratt og örugglega.“

Hvað með hraunflæðið, eruð þið með nýjar spár um hvert hraun kunni að flæða?

„Það liggur nokkuð ljóst fyrir. Það rennur þarna niður í Meradali. Og svo rennur áfram úr nýju gossprungunum niður í Geldingadali. Og svo er það tímaspursmál, ef þetta heldur áfram óbreytt, hvenær það nær svo austur, út úr Geldingadölum, og niður á flatann við Stóra Hrút. En þetta eru mun hægari atburðir, framrás hraunsins, heldur en þegar nýjar sprungur opnast. Þannig að við verðum að láta tímann leiða í ljós hversu langt og hvert hraunið rennur,“ segir Björn.