Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Uppruni hópsýkingar í grunnskólum enn óþekktur

08.04.2021 - 14:18
Mynd með færslu
 Mynd: Ljósmynd/Almannavarnir
Uppruni hópsýkingar í grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu í mars er enn óþekktur. Þetta segir Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningarteymis Almannavarna. Flest smitanna greindust meðal barna í Laugarnesskóla en á einum degi greindust þar 11 börn með COVID-19. Í nokkra daga voru öll börn í Laugarnesskóla og Laugalækjarskóla í sóttkví.

Afbrigðið kom frá útlöndum

„Sú veira, við vitum ekki uppruna þeirrar týpu,“ segir hann. Það var breska afbrigði veirunnar sem greindist í skólum: „Þetta eru þrjú bresk afbrigði sem hafa verið að greinast hér undanfarið. Og tvö þeirra hafa verið rakin til landamæranna en þetta afbrigði hefur ekki verið rakið þangað. Það geta verið margar skýringar á því.“

Eins og hverjar?

„Ja, það er augljóst að afbrigðið kom frá útlöndum. Það getur ekki hafa verið í dvala í svona langan tíma hér á Íslandi. Kannski einhverjir hafi komið með afbrigðið hingað en farið af landinu áður en það greindist. Eða það hefur einhvern veginn sloppið í gegnum þetta þó góða net sem við höfum.“

Smit enn að greinast tengd hópsýkingunni

Hvað eru margir sem tilheyra þeirri hópsýkingu?

„Þetta er dálítið stór hópur og það er ennþá að bætast í þann hóp. Þetta er 48 manns. Þetta er stærsta hópsýkingin sem hefur komið upp á þessu ári. Við höfum ekki séð smit breiðast svona hratt inn í skólana áður.“

Hann segir að í einstaka tilvikum veiti þeir sem hafa greinst með COVID-19 smitrakningarteyminu ekki réttar upplýsingar í byrjun, og að það geti stundum skipt sköpum um smitrakningu. „Þetta eru samt fá tilvik þar sem við sjáum að það hefur ekki öll sagan verið sögð í byrjun. En það hefur gerst undanfarið. Og stundum hefur fólk ekki áttað sig á því hvernig best er að framkvæma sóttkvína,“ bætir hann við.