Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Segja nýja reglugerð setja sóttkvíarhótel í uppnám

08.04.2021 - 21:21
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Rauði krossinn segir að ný reglugerð sem heilbrigðisráðherra setti í dag setji sóttvarnir og góðan árangur í sóttvarnahúsum í uppnám. Í fréttatilkynningu frá samtökunum segir að þau hafi ekkert verið upplýst um nýja reglugerð fyrr en við birtingu hennar. Þó sé ljóst að nýja reglugerðin boði miklar breytingar þegar kemur að sóttkvíarhúsum. RKÍ segir ekki hægt að tryggja útiveru gesta og sérstakan aðbúnað fyrir börn nema á kostnað sóttvarna og þar með öryggis sóttkvíarhótelsins.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti í dag nýja reglugerð sem tekur við af þeirri sem Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði ólöglega um síðustu helgi. 

Fulltrúar Rauða krossins lýsa verulegum áhyggjum yfir nýju reglugerðinni, þar sem hún setji sóttvarnir og góðan árangur í sóttvarnarhúsum í uppnám. Þeir segja að lykilatriði í að tryggja öryggi allra sem dvelja á sóttkvíarhóteli sé að lágmarka umgang gesta um sameiginleg svæði eins og hægt er. 

„Á þeirri viku sem liðin er frá opnun sóttkvíarhótelsins við Þórunnartún hafa nokkur smit greinst á meðal gesta þess,“ segir í fréttatilkynninguni. „Hefði sóttvörnum hússins verið ábótavant eða samgangur verið á milli gesta, er ljóst að þessi smit hefðu hæglega getað leitt til hópsýkingar. Slíkt hefði getað sett hluta starfsfólks hótelsins í sóttkví og orðið til þess að lengja sóttkví annarra gesta, en einungis örfáir framlínustarfsmenn Rauða krossins hafa hlotið bólusetningu.“

„Þetta er nánast ógerlegt“

Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður sóttvarnahúsa, sagði í tíufréttum í sjónvarpi að ekki væri hægt að starfa eftir nýju reglunum: „Ekki nema fórna þeim sóttvörnum sem við þurfum að fara eftir.

Hann sagði að nú þegar væru 150 í sóttkvíarhótelinu. Áður ef upp er staðið í kvöld er útlit fyrir að yfir 200 verði komnir á hótelið. Hann sagði að innrita þyrfti fólk sem kæmi á hótelið. Á sama tíma gæti fólk verið að fara eftir sama gangi þegar það útritaðist eftir sóttkví. Ef við bættist að fólk mætti fara í útivist myndi enn bætast á fjölda fólks sem væri á ferð innan hússins og þá færi fólk að hittast of mikið. 

„Þetta er nánast ógerlegt teljum við,“ sagði Gylfi Þór um að starfa eftir nýju reglugerðinni. Hann sagði margt óljóst um útivist fólks sem sætir sóttkví á sóttkvíarhótelinu. Til að mynda hvort að börn mættu fara á leikvelli í nágrenninu, hvort að fólk mætti fara niður á Sæbraut þar sem hlauparar væru á ferð, og annað í nágrenninu. 

Fréttin var uppfærð klukkan 22:09.