
Reið fram á norðsnjáldra í fjörunni
„Ég var að ríða úti og sá hann í fjörunni,“ segir Stefani um hvalfundinn. „Ég var búin að koma úr hinni áttinni og sá ekki neitt. Í seinni ferðinni kom ég austan að, eftir bökkunum, og þá sér maður ofan á hann. Það var náttúrulega bara heppni, því það var snjólaust og fjara á þeim tíma.“ Hún segir að tveimur til þremur dögum síðar hefði hvalurinn líklega ekki fundist. Þá hafi verið farið að snjóa og kominn mor í kringum hann.
Stefani tók myndir af hvalnum og sendi á fólk sem hún þekkti. Hún tilkynnti hvalrekann einnig og var skjótt brugðist við. Tveir menn komu frá Hafrannsóknastofnun, mældu dýrið og skoðuðu. „Þeim fannst þetta nógu spennandi til að koma áður en hann var grafinn.“ Búið er að grafa norðsjáldrann í fjörunni þar sem hann verður látinn rotna. Síðar verður hægt að grafa upp beinagrindina til rannsókna og sýningarhalds.
Styggir hvalir lengst úti í hafi
Samkvæmt fréttatilkynningu frá Náttúruminjasafni Íslands var norðsnjáldrinn sem fannst í Bót 4,73 metrar að lengd og líklega fullorðinn tarfur. Dýr þessarar tegundar verða stærst fimm til fimm og hálfur metri að lengd og allt að eitt og hálft tonn. Lítið er vitað um lífshætti dýranna sem lifa mestmegnis á bein- og brjóstfiskum og smokkfiski. Norðsnjáldrar finnast helst djúpt úti á Norður-Atlantshafi, frá New York flóa og Kanaríueyjum í suðri að Noregi við 70. breiddargráðu í norðri. Þeir eru styggir og halda sig mest lengst úti á hafi.
Sverrir Daníel Halldórsson, sérfræðingur á vefum Hafrannsóknastofnunar, og Hlynur Pétursson, útibússtjóri stofnunarinnar á Akureyri, mældu hvalinn og tóku sýni til nánari rannsókna. Þeirra athuganir gáfu til kynna að norðsnjáldrinn væri í góðu líkamlegu ástandi. Engar matarleifar fundust hins vegar í maga hans. Ekki er vitað hvernig dýrið drapst.
