Óttast tjón á túnum og girðingum í miklum flóðum í Laxá

08.04.2021 - 13:25
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Bóndinn á Hólmavaði í Aðaldal óttast að tjón verði á girðingum og landi í miklum flóðum sem nú eru í Laxá. Hann hefur ekki séð viðlíka flóð í ánni frá árinu 1979 og tún á stórum hluta jarðarinnar séu á kafi.

Þegar snjóar í miklum kulda myndast gjarnan krapastíflur í Laxá í Aðaldal og það gerðist einmitt í vikunni. Áin hefur flætt yfir bakka sína á nokkrum stöðum og meðal annars yfir tún og girðingar á bænum Hólmavaði.

Ekki séð meira flóð síðan 1979

Benedikt Kristjánsson bóndi þar segir algengt að Laxá flæði á þessum slóðum en nú sé þetta með allra mesta móti. „Ég man eftir vorlóði 1979, þá var gríðarlegt vatnsmagn hérna. Það var álíka og þetta, ef ekki aðeins meira.“ Og þetta hafi gerst mjög snögglega. „Það var ekkert merkjanlegt þegar við fórum að sofa, en svo um morguninn þá var bara einn fjörður hérna utan við húsið. Þannig að þetta gerðist mjög hratt.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Laxá í miklum ham skammt neðan við bæjarstæðið á Hólmavaði

Vatnið var sex metra frá íbúðarhúsinu

Hann segir engin hús hafa verið í hættu. „Nei þau eru ekki í hættu, þau eru það ofarlega. Þau eru byggð það hátt.“
„En fór þetta nálægt húsunum?“
„Já hérna við mitt íbúðarhús eru svona sex metrar í húsið og gamla þinghúsið hérna neðan við þar var þetta alveg komið upp að palli sem er við húsið. En húsin sluppu, eins og staðan er í dag.“

Ísinn geti rifið niður girðingar og jakar skemmt túnin

En Benedikt óttast tjón á girðingum og landi. „Mér sýnist að girðingarnar fari dálítið illa út úr þessu. Af því að það er frost og frýs jafnóðum. Þá myndast ís í girðingunum og þegar hann hleypur undan þá rífur það girðingarnar niður og brýtur staura. En tíminn verður bara að leiða það í ljós hvernig þetta kemur undan ísnum.“
„Er jarðvegurinn í hættu, þetta rífur hann ekkert upp eða hvað?“
„Ef það er komin þýða í túnin, það er búið að vera gott veður og getur verið komin þýða, þá getur þetta rifið upp jarðveginn þegar hún fer með jaka upp á túnin. Þá eru þetta bara eins og jarðýtublöð eftir túnunum.“