Óljóst hver á að vara við gasmengun

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir óljóst hver eigi að vara íbúa við gasmengun þegar hún fer yfir heilsuverndarmörk. Mikil mengun vegna jarðeldanna í Geldingadölum mældist í um tuttugu mínútur í Njarðvík í gærmorgun, eða um tvö þúsund míkrógrömm á rúmmetra. Þegar svo mikil mengun mælist eiga börn að halda sig sem mest innandyra og íbúar að loka gluggum, en þeir voru ekki varaðir við í tæka tíð í gær.

„Það er ekki gott. Við erum einmitt að ræða það við Almannavarnir, Veðurstofuna og Umhverfisstofnun á hvers höndum það er að upplýsa um svona ástand eins og var hér. Sem betur fer var það ekki mjög lengi en er viðbúið að komi aftur,“ segir Kjartan.

„Almannavarnir hafa gefið grænt ljós á að halda hér kynningarfund fyrir íbúa um hvar og hvernig þeir geti sjálfir nálgast þessar upplýsingar, hvernig eigi að túlka þær og hvenær ástæða er til að grípa til aðgerða,“ segir hann. „Við erum þá að mennta fólkið hér í því að lifa með þessu ástandi - vonandi ekki um aldur og ævi - en svona næstu daga, kannski vikur eða mánuði.“

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur komið upplýsingum um loftgæði og veður á framfæri á Facebook síðu sinni. Kjartan segir að skoða þurfi fleiri leiðir til að vara fólk við. Hann hafi fundið fyrir því að íbúar hafi áhyggjur af afleiðingum gasmengunarinnar.

„Sérstaklega fólk sem er veikt fyrir eða með börn. Foreldrar barna í leik- og grunnskólum hafa haft samband og spurt okkur af hverju ekki hafi verið varað við þessu ástandi í gær. Þetta eru allt saman réttmætar spurningar sem við erum bara sjálf að átta okkur á hvernig skuli bregðast við,“ segir Kjartan.

Líklegt er að einhver gasmengun vegna jarðeldanna mælist í Grindavík í dag. Ekki er talið að hún ógni göngufólki á gossvæðinu að svo stöddu.