Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Óeirðir í Belfast sjötta kvöldið í röð

08.04.2021 - 04:11
Nationalists and Loyalists clash with one another at the peace wall on Lanark Way in West Belfast, Northern Ireland, Wednesday, April 7, 2021. The police had to close roads into the near by Protestant area as crowds from each divide attacked each other. (AP Photo/Peter Morrison)
 Mynd: AP
Óeirðir voru í Belfast í Norður-Írlandi í gærkvöldi, sjötta kvöldið í röð. Stræitsvagni var rænt og eldur lagður að honum á svæði mitt á milli hverfa þjóðernissinna og sambandssinna. Þá greinir Guardian frá því að steinum hafi verið grýtt í átt að lögreglumönnum og ráðist var á blaðaljósmyndara að störfum. Kveikt var í dekkjum og ruslafötum nærri hliði á girðingunni sem skilur að hverfin.

Þau Arlene Foster, fyrsti ráðherra Norður-Írlands, og Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, fordæmdu bæði ofbeldið í gær.

Johnson sagðist verulega áhyggjufullur, sérstaklega vegna ofbeldisins í garð lögreglumanna sem gæti almennings og fyrirtækja, árása á bílstjóra strætisvagna og árásarinnar á blaðamann. Þá sagði hann samtal vera einu leiðina til að leysa ágreining, ekki ofbeldi eða glæpi.

Írski forsætisráðherrann Micheal Martin kallaði eftir því að leiðtogar Írlands, Norður-Írlands og Bretlands sameini krafta sína til þess að binda enda á ofbeldið.

Samkoma sambandssinna var auglýst á samfélagsmiðlum í gær. Tugir dökkklæddra ungmenna komu saman klukkan fimm síðdegis, og fylgdust fleiri með álengdar. Einhver ungmennanna kveiktu eld á miðjum veginum á meðan aðrir söfnuðu saman grjóti og bjuggu til bensínsprengjur áður en ráðist var á strætisvagninn. Ungmenni úr hverfi þjóðernissinna höfðu fylgst með auglýsingum sambandssinna á samfélagsmiðlum. Þeir mættu á staðinn og köstuðu gróti og flöskum í áttina að hverfi sambandssinna. Lögregla aðskildi hópana með því að leggja jeppum sínum á milli þeirra. 

Mikil ólæti hafa verið í borgum Norður-Írlands síðan á föstudag í síðustu viku. Ákvörðun yfirvalda um að ákæra ekki leiðtoga Sinn Fein fyrir að mæta í fjölmenna útför hefur vakið mikla reiði meðal sambandssinna. Lýðræðislegi sambandsflokkurinn lýsti reiði sinni vegna ákvörðunarinnar, og sagði Foster, leiðtogi flokksins, að þetta sýndi að aðrar reglur giltu fyrir flokksmenn Sinn Fein en aðra íbúa Norður-Írlands sem hafa misst ástvini í faraldrinum.

Kveða Brexit ýfa öldurnar

Guardian segir aðra kenna Brexit um megna óánægju fólks. Dómsmálaráðherra Norður-Írlands, Naomi Long, segir rangindi Boris Johnson vegna landamæraeftirlits af völdum Brexit hafa kynt undir reiðiölduna.
Sendiherra Evrópusambandsins í Bretlandi sagði í viðtali við Guardian fyrr í vikunni að hann skildi viðkvæma stöðu Norður-Írlands. Hann sagði ESB ákveðið í að leita uppbyggilegra leiða til að kljást við vandamálin, en þær verði að vera innan þeirra marka sem samþykkt voru fyrir ekki svo löngu síðan. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV