Líklegt að gas mælist í Grindavík

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Líklegt er að gasmengun vegna jarðeldanna í Geldingadölum mælist í Grindavík í dag en gert er ráð fyrir norðaustan tíu til fimmtán metrum á sekúndu. Loftgæði eru talin mjög góð eins og er en lítil breyting á vindátt getur breytt miklu hvað mengunina varðar.

Í gær mældist mikil gasmengun í Njarðvík, eða um tvö þúsund míkrógrömm á rúmmetra. Þegar svo mikil mengun mælist eiga börn að halda sig innandyra og íbúar að loka gluggum. Þá mældist mengun einnig í Vogum.

Umhverfisstofnun hefur hvatt fólk til að fylgjast vel með dreifingaspá Veðurstofunnar og loftgæðamælingu stofnunarinnar.