Leggur fram frumvarp um afglæpavæðingu neysluskammta

08.04.2021 - 16:52
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur lagt fram frumvarp á Alþingi um afglæpavæðingu neysluskammta. Samkvæmt því verður fólki ekki refsað fyrir vörslu takmarkaðs magns fíkniefna til eigin nota og þau efni verða heldur ekki gerð upptæk hjá fullorðnu fólki.

Þetta er þriðja frumvarpið sem lagt er fram á síðustu árum um afglæpavæðingu neysluskammta. Tvö frumvörp Halldóru Mogensen, þingmanns Pírata, náðu ekki fram að ganga. Hið síðara var fellt í atkvæðagreiðslu á Alþingi við lok þingstarfa 30. júní í fyrra. Í greinargerð með frumvarpi heilbrigðisráðherra segir að frumvarpið sem nú hefur verið lagt fram byggi að hluta á vinnu við og umsögnum um frumvarp Halldóru og meðflutningsfólks hennar.

Í greinargerð með frumvarpinu er vísað til stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem segi að snúa þurfi af braut harðra refsinga fyrir neyslu fíkniefna og leggja áherslur á forvarnir og lýðheilsu.

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV

Neysluskammtar ákveðnir í reglugerð

Samkvæmt frumvarpinu verða kaup og varsla fíkniefna heimil í magni sem er ekki umfram það sem getur talist til eigin nota. Jafnframt er kveðið á um að ekki skuli gera fíkniefni í vörslu fullorðinna einstaklinga upptæk ef magnið er innan marka. Eftir sem áður verður óheimilt að flytja inn, selja, framleiða og taka við fíkniefnum og óheimilt að kaupa eða hafa í fórum sínum meira magn fíkniefna en flokkast getur sem efni til einkanota.

Heilbrigðisráðherra er falið að skilgreina með reglugerð hversu mikil fíkniefni fólk megi hafa á sér. Eitt af því sem stjórnarliðar gagnrýndu þegar þeir felldu frumvarp Halldóru Mogensen var að ekki væri að finna skilgreiningu á neysluskömmtum í frumvarpi hennar.

„Þrátt fyrir að frumvarpið feli í sér afmarkaðar aðgerðir sem snúa að breytingu á lögum nr. 65/1974, með það að markmiði að afglæpavæða neysluskammta til eigin nota, er ljóst að með frumvarpinu er stigið stórt skref í þeirri stefnu stjórnvalda að meðhöndla eigi vanda vímu-efnanotenda í íslensku samfélagi í heilbrigðiskerfinu fremur en dómskerfinu,“ segir í greinargerð með frumvarpinu. Þar er jafnframt vísað til þess að lögum hafi verið breytt þannig að opna megi neyslurúmi. Hér er þó lengra gengið, segir í greinargerðinni: „Vonir standa til þess að hægt verði að leggja fram heildstæða stefnu í málaflokknum á komandi árum með aukinni áherslu á forvarnir, með-ferðarúrræði og skaðaminnkandi verkefni, en á sama tíma er mikilvægt að taka fleiri skref í átt að mannúðlegra fyrirkomulagi í málaflokknum. Í því ljósi er sú lagabreyting sem hér er lögð til talin nauðsynleg.“