Hvað í ósköpunum gengur á hjá Alvogen?

08.04.2021 - 14:53
Mynd: - / samsett mynd
Kýlingaleikir, morðhótanir og harðar ásakanir. Hvað í ósköpunum gengur á hjá lyfjafyrirtækinu Alvogen? Eftir að náinn samstarfsmaður forstjórans snerist gegn honum hafa ásakanir gengið á víxl og málið virðist rétt að byrja.

Deilur forstjóra Alvogen og fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá fyrirtækinu voru örskýrðar í Hádeginu á Rás 1. Hlustaðu á örskýringuna í spilaranum hér fyrir ofan.

En hvernig hófst þetta allt saman? Hvað hefur gengið á og hvar stendur málið í dag? Við skulum rýna í málið í örskýringu sem skilur vonandi eftir færri spurningar en svör. Ég lofa samt engu.

Það fór ekki mikið fyrir litlum fréttamola á vefnum Mannlíf.is þann 18. mars með fyrirsögninni: Róbert Wessman eignast fjölmiðil. Það er ekki óalgengt að ríkir menn eignist fjölmiðla á Íslandi en fréttin fjallaði eiginlega ekki um það, heldur um að Róbert og Árni Harðarson, samstarfsmaður hans, hefðu tekið yfir rekstur Man.is og að það hefði verið tilkynnt til fjölmiðlanefndar. 

Það stóð samt ekki til að opna vefmiðil. Það er ekkert inni á Man.is en þar var áður vefur tímaritsins Man, sem hætti að koma út í byrjun árs 2019. Í sama fréttamola kom fram að fyrrnefndir Róbert og Árni hefðu einnig eignast fjárfestingafélagið Dalinn, eiganda Man útgáfufélags, og að seljandinn hefði verið viðskiptafélagi þeirra til margra ára: Halldór Kristmannsson.

Gott og vel. Þetta var 18. mars en hvað gerðist svo?

23. mars sendi Alvogen frá sér yfirlýsingu um að fyrirtækið hefði látið óháða aðila rannsaka starfshætti forstjórans Róberts Wessman vegna kvartana starfsmanns. Í yfirlýsingunni kom fram að alþjóðlega lögfræðistofan White & Case LLP hafi verið fengin til að kanna málið og að niðurstaðan hafi verið sú að kvartanirnar ættu sér ekki neina stoð. 

Umræddur starfsmaður var Halldór Kristmannsson, þá framkvæmdastjóri hjá Alvogen. Fréttablaðið greindi frá aðkomu hans, sem varð svo til þess að hann steig fram í lok mars. Hann sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagði meðal annars frá morðhótunum Róberts sem beindust að fyrrverandi samstarfsfélögum ásamt því að saka hann um að kýla sig kaldan og kalla það „kýlingaleik“. Þá sagði Halldór að Róbert hafi viljað nota fjölmiðla sína til að koma höggi á háttsetta embættismenn á Íslandi, alþjóðlegan fjárfesti og íslenskan blaðamann. 

Og hvað? Snýst þetta allt saman um peninga?

Þessi atvik, sem Halldór lýsti í yfirlýsingu sinni, urðu meðal annars til þess að stjórn Alvogen og Alvotech létu kanna stjórnarhætti Róberts Wessmann. Og frá því að Halldór sendi yfirlýsinguna frá sér hafa ásakanir gengið á víxl. 

Róbert segir að ásakanir Halldórs séu gerðar í fjárhagslegum tilgangi en því hafnar Halldór, sem segist ekki hafa gert fjárkröfur á Alvogen. Hann segist þó áskilja sér rétt til að sækja bætur til Róberts persónulega.

En hvað kemur Björgólfur Thor málinu við?

Alvogen og Alvotech hafa stefnt Halldóri vegna meints trúnaðarbrots í starfi og freista þess að fá lögmæti uppsagnar hans staðfesta fyrir héraðsdómi. 

Nafn Björgólfs Thors Björgólfssonar flæktist í málið þegar Fréttablaðið greindi frá því að Halldór hefði átt fund með Björgólfi í nóvember og að í stefnunni hefði komið fram að umræddur fundur hafi verið óásættanlegur. Róbert og Björgólfur hafa nefnilega lengi eldað grátt silfur saman, sem má rekja til ársins 2008 þegar Róbert hætti störfum hjá Actavis, en félag Björgólfs var stærsti hluthafinn í fyrirtækinu.

Halldór viðurkennir að hafa hitt Björgólf en segir það hafa verið til að spyrja hann um ósæmilega hegðun Róberts þegar hann var forstjóri Actavis.

Og nú klórum við okkur í hausnum og spyrjum: Hvað gerist næst?

Það er góð spurning. Héraðsdómur hefur þingfest umrædda stefnu. Málið er snúið þar sem Halldór er hluthafi í Alvogen og Alvotech og í sáttatillögu sinni segist hann vilja að óháðir aðilar taki hæfi Róberts Wessmann til skoðunar.