Heldur sextán sinnum upp á sama afmælið

Mynd: Karl Sigtryggsson / RÚV/Landinn

Heldur sextán sinnum upp á sama afmælið

08.04.2021 - 07:50

Höfundar

Það er afmæli, stórafmæli, hálfrar aldar afmæli svo nákvæmni sé gætt. Afmælisbarnið á að vísu ekki afmæli fyrr en seint í september en þangað til verða haldnar fjölmargar afmælisveislur, eða allt að sextán.

„Þetta var nú eiginlega bara hugmynd til þess að sleppa við að halda veislu sem myndi krefjast rosalega mikils undirbúnings og taka fljótt af, og þar með væri svona tómleikatilfinning á eftir," segir Hulda Ragnheiður Árnadóttir, sem var að undirbúa þriðju afmælisveisluna þegar Landinn leit í heimsókn. 

Átta boðsgestir eru í hverri veislu og í staðinn fyrir hefðbundrnar afmælisgjafir þá er því beint til veislugesta að styrkja Kvennathvarfið eða UN Women. 

„Svo langaði mig líka til að fá tækifæri til að tala við fólkið í veislunni og mynda tengsl. Það skemmtilega er líka að þetta er óvissuferð bæði fyrir mig og gestina. Fólk skráði sig bara á ákveðna dagsetningu og gat þá ekki vitað hver yrði með þeim í veislunni. Svo sest fólk bara saman við borðið og kynnist og skemmtir sér saman fram eftir kvöldi," segir afmælisbarnið Hulda Ragnheiður.