„Þetta var nú eiginlega bara hugmynd til þess að sleppa við að halda veislu sem myndi krefjast rosalega mikils undirbúnings og taka fljótt af, og þar með væri svona tómleikatilfinning á eftir," segir Hulda Ragnheiður Árnadóttir, sem var að undirbúa þriðju afmælisveisluna þegar Landinn leit í heimsókn.
Átta boðsgestir eru í hverri veislu og í staðinn fyrir hefðbundrnar afmælisgjafir þá er því beint til veislugesta að styrkja Kvennathvarfið eða UN Women.
„Svo langaði mig líka til að fá tækifæri til að tala við fólkið í veislunni og mynda tengsl. Það skemmtilega er líka að þetta er óvissuferð bæði fyrir mig og gestina. Fólk skráði sig bara á ákveðna dagsetningu og gat þá ekki vitað hver yrði með þeim í veislunni. Svo sest fólk bara saman við borðið og kynnist og skemmtir sér saman fram eftir kvöldi," segir afmælisbarnið Hulda Ragnheiður.