Hærri sektir fyrir að rjúfa sóttkví og strangari reglur

Mynd með færslu
 Mynd: bragi valgeirsson
Þeir sem ætla að vera í sóttkví í heimahúsi eiga helst að vera einir á dvalarstað. Ef það eru fleiri á þeim stað þurfa þeir allir að sæta sömu skilyrðum sóttkvíar. Heilbrigðisráðherra og sóttvarnalæknir hafa komið þeim skilaboðum áleiðis til ríkissaksóknara og ríkislögreglustjóra um að hækka eigi sektir fyrir að rjúfa sóttkví til muna. Reglugerðin tekur gildi strax á morgun.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu þar sem lagðar eru til breytingar á reglum varðandi þá sem koma til landsins. Reglurnar gilda fyrir alla, óháð því hvort þeir komi frá há-áhættusvæði eða ekki. Farþegar frá Grænlandi eru þeir einu sem áfram undanþegnir aðgerðum á landamærunum.

Reglugerðin tekur gildi strax á morgun

Ljóst var strax í gær, eftir að Landsréttur vísaði frá kæru sóttvarnalæknis vegna úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur um að ekki mætti skikka fólk sem gæti verið í sóttkví heima sér í sóttkvíarhótel, að setja þyrfti nýjar reglur.  Sóttvarnalæknir skilaði minnisblaði til heilbrigðisráðherra strax í gær og nú síðdegis sendi heilbrigðisráðuneytið frá sér tilkynningu og reglugerð sem til stendur að birta. 

Þá vekur athygli að þeir sem kjósa að dveljast á sóttkvíarhótelinu gera það sér að kostnaðarlausu en til stóð að frá 11. apríl myndi fólk greiða tíu þúsund krónur fyrir nóttina.  Sóttvarnalæknir segir í minnisblaði sínu að líklegt sé að gjald fæli einhverja frá því að gista í sóttvarnahúsi.

Skýrari reglur um heimasóttkví

Þeir sem ætla að vera heima þurfa að uppfylla nokkuð ströng skilyrði; eiga að vera einir á dvalarstað og ef það er ekki hægt þurfa allir á dvalarstaðnum að fara í sóttkví. 

Til stendur að gera fólki dvölina bærilega á sóttkvíarhótelinu og reyna þannig að fá fólk til að fara þangað frekar en heim til sín.  Meðal annars á  að leyfa fólki að njóta útiveru en algjörlega hafði verið tekið fyrir slíkt á fyrstu dögum sóttkvíarhótelsins í Þórunnartúni. Þá á að taka sérstakt tillit til barna en það var akkúrat fjögurra manna fjölskylda sem kærði dvöl sína til héraðsdóms og krafðist þess að vera leyft að vera heima.

Þurfa að fara í sýnatöku þrátt fyrir vottorð

Þeir sem framvísa vottorði um bólusetningu eða fyrri sýkingu þurfa að fara í sýnatöku við komuna til landsins. Þeir þurfa ekki að fara í sóttkví en eiga að halda kyrru fyrir á dvalarstað þar til niðurstaða fæst.  Þetta má rekja til þess að dæmi eru um að farþegar með vottorð um fyrri sýkingu eða bólusetningu hafi borið veiruna með sér, meðal annars á Suðurlandi í vikunni.

Sóttvarnalæknir hefur auk þess lagt til við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra að eftirlit með þeim sem eru í sóttkví heima hjá sér verði aukið. Þá hefur bæði hann og heilbrigðisráðherra komið þeim skilaboðum áleiðis til ríkislögreglustjóra og ríkissaksóknara um að hækka beri sektir fyrir að rjúfa sóttkví til muna. 

Þeir sem brjóta gegn skyldum sínum að vera í sóttkví geta verið sektaðir um allt að 250 þúsund krónur. Sóttvarnalæknir segir í minnisblaði sínu að ætla megi að hærri sektir letji menn til að brjóta sóttkvíarreglur.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV