Hádegisfréttir: Hópsmit vegna nýs afbrigðis veirunnar

08.04.2021 - 12:15
Fjögur kórónuveirusmit greindust hér á landi í gær, en allir voru í sóttkví. Hópsmit sem tengist íbúum í Mýrdalshreppi er vegna afbrigðis kórónuveirunnar sem ekki hefur sést hér á landi áður, að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir þetta nýja afbrigði gefa tilefni til breytinga á sóttvörnum hér. Skima verði alla sem koma til landsins tvisvar, með sóttkví á milli, jafnvel þó þeir hafi sýkst áður eða verið bólusettir. 

Heilbrigðisráðuneytið fer fram á að velferðarnefnd Alþingis haldi trúnað um gögn sem liggja að baki reglugerð um sóttvarnir. Sumir nefndarmenn telja að málið eigi erindi til almennings og hafa farið fram á að ráðuneytið endurskoði afstöðu sína.

Vísindaráð almannavarna metur í dag hugsanlega þróun jarðeldanna við Fagradalsfjall og hvernig bregðast megi við. 

Yfir níu hundruð manns létust úr COVID-19 í Póllandi síðasta sólarhringinn. Þar hefur þriðja bylgja faraldursins verið mjög skæð og segir talsmaður heilbrigðisráðuneytis Póllands að staðan sé mjög alvarleg, bæði fyrir heilbrigðiskerfið og samfélagið.

Bóndi í Aðaldal óttast tjón á girðingum og landi þar sem Laxá flæðir nú yfir bakka sína. Hann segir þetta mestu flóð á sinni jörð í rúm fjörutíu ár.

Evrópumeistararnir í liði Bayern München eiga á brattann að sækja í Meistaradeild Evrópu í fótbolta eftir tap gegn PSG í 8-liða úrslitum í gærkvöld.

Hádegisfréttir hefjast klukkan 12.20.
 

Frettir's picture
Fréttastofa RÚV