Guðmundur semur við lykilmann Portúgala

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Guðmundur semur við lykilmann Portúgala

08.04.2021 - 10:49
Portúgalska stórskyttan André Gomes hefur samið við þýska handboltaliðið Melsungen frá og með næstu leiktíð. Melsungen krækir í Gomes frá Porto í Portúgal.

Guðmundur Guðmundsson þjálfari Melsungen þekkir vel til André Gomes. Sem landsliðsþjálfari Íslands mætti hann Gomes og félögum hans í portúgalska landsliðinu þrisvar sinnum á átta dögum í janúar, tvisvar í undankeppni EM og svo í fyrsta leik liðanna á HM í Egyptalandi. Samningur Portúgalans við Melsungen er til þriggja ára.

Áður hafði Melsungen samið við Elvar Örn Jónsson um að leika með liðinu frá og með næstu leiktíð. Elvar spilar nú með Skjern í Danmörku. Í frétt á vefsíðu þýsku deildarinnar er haft eftir Axel Geerken stjórnarmanni hjá Melsungen að Guðmundur Guðmundsson hafi haft mikið um það að segja að félagið sé búið að klófesta André Gomes og Elvar Örn. Þeir muni gefa Melsungen aukna vídd í leik liðsins og gera liðið betra.