„Ekkert útivistarveður“ við gosstöðvarnar

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Opnað var fyrir aðgengi almennings að gosstöðvunum klukkan sex í morgun en rýma þurfti svæðið vegna gasmengunar í gærkvöld. Hjálmar Hallgrímsson, vettvangsstjóri lögreglunnar á Suðurnesjum, segir ekki ráðlagt að fara að gosstöðvunum í dag en lögregla og vísindamenn funda um stöðuna klukkan tíu.

„Það eru þrír eða fjórir bílar hérna og einhverjir á fjallinu. Veður er mjög vont. Það er norðaustan átt, fimm stiga frost og ekkert útivistarveður,“ segir Hjálmar. „Það eru til miklu betri dagar en þessi í dag til að þess að ganga þarna upp eftir,“ segir hann.

Líklegt er að gasmengun vegna jarðeldanna í Geldingadölum mælist í Grindavík í dag en Hjálmar segir ólíklegt að mikil mengun mælist við gosstöðvarnar. „Það voru mælingar þarna í gærkvöldi og þá mældist gas víða. Það er ástæðan fyrir því að það var rýmt í gær. Nú er bara svo sterkur vindur að ég geri ráð fyrir að það sé engin gasmengun þarna við,“ segir hann.