Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Byrjar með nýrri reglugerð en lagasetning möguleg

Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að ný reglugerð sem tekur gildi á miðnætti taki mið af lögum og niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur um reglugerðina sem var úrskurðuð ólögleg um páskahelgina. Hún vonar að hægt verði að draga úr takmörkunum innanlands í næstu viku, svo sem á vettvangi íþrótta og sviðslista og með því að rýmka samkomutakmarkanir.

„Það verður gripið til þeirra ráðstafana fyrst og fremst með nýrri reglugerð að skýra betur kröfurnar um hvað þú þarft að uppfylla til að geta talist vera í sóttkví. Ef þær kröfur eru ekki uppfylltar þá þurfi viðkomandi að vera í sóttvarnar- eða sóttkvíarhúsi,“ segir Svandís. Hún segir að þarna sé byggt á gildandi lögum og því sem kom fram í úrskurði héraðsdóms.

Tryggt verður að fólk geti farið út undir bert loft og fallið verður frá gjaldtöku á sóttkvíarhóteli. „Það mun ekki kosta neitt fyrir fólk að vera þar ef það kýs að vera þar í sóttkví eða getur ekki sýnt fram á að það geti setið sóttkví heima hjá sér.“

Lagasetning enn möguleiki

Sóttvarnalæknir segir að það sem hann leggi til í nýju minnisblaði sem reglugerðin byggir á gangi ekki jafn langt og fyrri tillögur og tvísýnna um árangur. Kemur lagasetning til greina til að geta skikkað fólk til dvalar á sóttkvíarhóteli? „Ég útiloka það ekki. Ég held að við þurfum að minnsta kosti að hafa hraðar hendur. Við þurfum að byrja á þessu og sjá hvað við náum langt með þessu.“

Svandís segist hafa samþykkt þær tillögur sóttvarnalæknis sem snúi að sér. Hærri sektir og aukið eftirlit með þeim sem eru í heimasóttkví sé hins vegar ekki á hennar borði.

Reglugerðin sem tekur gildi á miðnætti gildir til mánaðamóta en verður í stöðugri endurskoðun segir heilbrigðisráðherra. Hún segir aðalmálið að vinna gegn útbreiðslu faraldursins. „Við höfum fengið vísbendingar um það að þessi afbrigði sem eru að greinast hér innanlands eru ný og af öðrum toga. Við erum að tala um breska afbrigðið í nýjum smitum. Við vitum að það er alvarlegra á svo margan hátt. Það gildir líka um önnur afbrigði sem hafa sem betur fer ekki ratað inn í íslenskt samfélag en gæti gerst.“

Vonast eftir tilslökunum

Eftir að fólk greindist með breska afbrigðið var ákveðið að herða mjög samkomutakmarkanir og sóttvarnaráðstafanir innanlands. Nýjar reglur tóku gildi fyrir páska og gilda til 15. mars.

„Ég vona að við sjáum tilslakanir. Þess vegna stend ég hérna ennþá, vegna þess að ég hef alltaf trúað því að við séum á réttri leið,“ segir Svandís. Hún segir að þriggja vikna harðar aðgerðir hafi verið hugsaðar með það að sjónarmiði að ná miklum árangri á skömmum tíma. „Þá býst ég við því að sjá einhverjar tillögur frá Þórólfi um það hvort að hann telji tímabært að gera einhverjar tilslakanir. Næstu skref væru þá mögulega íþróttir, sviðslistir, mögulega að hækka þessi mörk úr tíu,“ segir Svandís. „Ég vona að við séum frekar í slökunarham á næstu vikum en það ræðst af stöðu faraldursins bæði innanlands og í löndunum í kringum okkur.“

Svandís segir að það hafi verið ákveðin vonbrigði að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði að reglugerðin um að skikka fólk til dvalar á sóttvarnahóteli stæðist ekki lög. Hún sagði miður að fá ekki efnislega niðurstöðu hjá Landsrétti.