Haft er eftir Biles á vef breska ríkisútvarpsins BBC að mögulegt sé að hún muni mæta líka til leiks á Ólympíuleikana í París 2024. Biles sem er aðeins 24 ára var ein af stjörnum leikanna í Ríó de Janeiro 2016 og hefur unnið 25 verðlaun á heimsmeistaramótum í fimleikum.
„Í augnablikinu einbeiti ég mér bara að Ólympíuleikunum [í Tókýó],“ er haft eftir Biles. Þjálfarar hennar, Laurent Landi og Cecile Canqueteau-Landi, eru franskir og Ólympíuleikarnir 2024 verða í París. „Ég veit ekki lengur hvað ég geri eftir Tókýó leikana. Cecile og Laurent eru frá París og þau hafa verið að höfða til samvisku minnar að keppa jafnvel á leikunum í París. En aðal takmark mitt núna er að standa mig vel á 2021 Ólympíuleikunum,“ sagði Biles.
Þá segist Biles bjartsýn á að Ólympíuleikarnir verði haldnir í Tókýó í sumar þrátt fyrir COVID-19 heimsfaraldurinn. Hún hefur þó ekki enn verið bólusett gegn kórónuveirunni en hlakki til þess.