Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Ævisaga Mike Pence gefin út fyrir kosningar 2024

08.04.2021 - 01:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fyrrverandi varaforsetinn Mike Pence skrifaði nýverið undir samning við útgefandann Simon & Schuster um útgáfu ævisögu sinnar. Að sögn AFP fréttastofunnar er verðmæti samningsins um þrjár milljónir bandaríkjadala, jafnvirði um 380 milljóna króna.

Útgefandinn greindi frá því í gær að saga Pence sé bandarísk saga um einstakan feril í opinberri þjónustu á tímum sem áhugi almennings á stjórnmálum og Bandaríkjastjórn var í hámarki. Í bókinni verður fjallað um trú Penec og störf hans hjá hinu opinbera. Þar á meðal verður fjallað um feril hans á Bandaríkjaþingi, leið hans að ríkisstjóraembættinu í Indiana og endurkomu hans til Washington sem varaforseti.

Samningurinn er um tvær bækur, og á sú fyrri að koma út árið 2023. Að sögn AFP fréttastofunnar ætlar Pence að freista þess að verða forsetaframbjóðandi Repúblikana fyrir kosningarnar árið 2024. Samningurinn við Simon & Schuster er hefðbundið skref í þá átt, en margir bandarískir stjórnmálamenn hafa gefið út ævisögu í aðdraganda kosninga. 

Pence hefur lítið látið fyrir sér fara síðan Donald Trump tapaði forsetakosningunum í nóvember. Trump réðist harkalega að honum í ársbyrjun þegar hann reyndi að þrýsta á Pence að ógilda kosningaúrslitin. Pence sagði á Bandaríkjaþingi 6. janúar að hann ætlaði ekki að hlutast til um úrslitin. Þann sama dag réðist æstur múgur inn í þinghúsið, og var Pence meðal þeirra sem var komið í skjól.