Yfir fjögur þúsund dauðsföll á einum sólarhring

epa09119567  A woman victim of COVID-19 is buried in a cemetery in Rio de Janeiro, Brazil, 06 April 2021. Brazil registered 4,195 deaths associated with COVID-19 in the last 24 hours, a new daily maximum, and accumulated 336,947 deaths since the start of the pandemic just over a year ago, official sources reported on 06 April.  EPA-EFE/Antonio Lacerda
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Fleiri en fjögur þúsund dauðsföll af völdum COVID-19 voru skráð í Brasilíu síðasta sólarhring, að sögn þarlendra heilbrigðisyfirvalda. Þetta er í fyrsta sinn sem yfir fjögur þúsund deyja á einum sólarhring af völdum sjúkdómsins í Brasilíu.

Samanlagt hafa nú nærri 337 þúsund dáið og um 13 milljónir greinst með COVID-19 í Brasilíu síðan faraldurinn hófst. Bylgjan sem nú ríður yfir landið er að sögn sérfræðinga að mestu vegna P1 afbrigðisins, sem varð til þar í landi. Afbrigðið nær einnig að smita fólk sem fékk upprunalegu kórónuveiruna, og jafnframt er það talið meira smitandi að sögn AFP fréttastofunnar.

Samkvæmt tölfræðivefnum Worldometers voru dauðsföllin í Brasilíu síðasta sólarhring rúmlega þriðjungur af öllum dauðsföllum af völdum COVID-19 í heiminum þann sólarhring. Einungis í Bandaríkjunum hafa fleiri fallið frá vegna kórónuveirunnar, eða um 570 þúsund talsins.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV