Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Við vissum að þetta væri hættusvæði“

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Ný gossprunga myndaðist um miðnætti á eldstöðvunum á Reykjanesskaga. Sprungan er á milli upprunalega gossins í Geldingadölum og þess nýja í Meradölum. „Þetta er ein af ástæðunum af hverju við lokuðum í gær. Við vissum að þetta væri hættusvæði, að þetta gæti gerst og það gerðist,“ segir Hjálmar Hallgrímsson, vettvangsstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum.

Nýjar gönguleiðir hafa verið lagðar og svæðið hefur verið betur afmarkað. „Við erum með gæslu á svæðinu og erum að stýra frá. Það kemur til greina að hafa einhverjar girðingar en fólk á alveg að sjá hvað er hættulegt og hvað ekki,“ segir Hjálmar. Hann segir stöðuna endurmetna reglulega út frá veðurskilyrðum og gasmengun.

Aðgengi að gosstöðvunum var opnað almenningi að nýju klukkan sex í morgun. „Það er norðaustanhríð og alls ekki gott til göngu en það eru einhverjir farnir af stað. Það var svo sem auglýst opið klukkan sex í morgun og ég geri ráð fyrir að það fólk átti sig bara á því hvað það er að fara út í,“ segir Hjálmar.

Lögregla fundar með vísindamönnum og öðrum sérfræðingum klukkan níu. Þar verður tekin ákvörðun um aðgengi að gosstöðvunum í dag.

Nýja sprungan er á því svæði sem björgunarsveitarfólk varð vart við jarðsig í byrjun vikunnar. Það svæði var um 150 metra langt, um 420 metrum norðaustan við upptök gossins í Geldingadölum.

„Það kæmi mér ekkert á óvart ef þetta héldi áfram að opnast,“ segir Hjálmar. „Það kemur manni ekkert á óvart í þessu orðið.“