„Verður maður ekki alltaf að vera bjartsýnn?“

epa08031445 Hordur Magnusson (R) of CSKA Moscow in action against Jody Lukoki (L) of Ludogorets during the UEFA Europa League group H soccer match between CSKA Moscow and Ludogorets in Moscow, Russia, 28 November 2019.  EPA-EFE/SERGEI ILNITSKY
 Mynd: EPA

„Verður maður ekki alltaf að vera bjartsýnn?“

07.04.2021 - 10:29
„Ég er bara brattur. Ég hef núna fengið tíma til að melta þetta aðeins og er bara tilbúinn núna fyrir endurhæfingu,“ sagði Hörður Björgvin Magnússon landsliðsmaður í fótbolta við RÚV í dag. Hörður sleit hásin í leik með CSKA Moskvu um helgina sem mun halda honum frá keppni í nokkra mánuði.

„Þegar þetta gerðist í leiknum, þá leit ég strax við til að athuga hvort einhver leikmaður hefði sparkað í mig. En síðan sá ég bara að ég var einn, þannig ég hugsaði strax að ég hefði slitið. Þetta er auðvitað bara leiðinlegt. Leiðinlegur tímapunktur þegar félagsliðið er í góðri stöðu í deildinni og sex leikir eftir í jafnri deild. Þannig það er erfitt að fara frá liðinu á þessum tímapunkti í þessari stöðu,“ sagði Hörður Björgvin.

CSKA Moskva er sem stendur í 4. sæti rússnesku deildarinnar með 43 stig. Zenit frá Pétursborg er á toppi deildarinnar með 51 stig, Spartak Moskva hefur 47 stig í 2. sæti og Lokomotiv Moskva hefur svo 43 stig í 3. sæti, sama stigafjölda og CSKA.

Á leið til Finnlands í aðgerð

Fram undan er endurhæfing hjá Herði Björgvini. „Ég flýg til Finnlands á morgun og fer í aðgerð á föstudag. Síðan kem ég bara aftur til Moskvu og verð í 2-3 vikur þar áður en ég kem svo til Íslands í sumarfrí.“

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Ljóst er að Hörður sem á að baki 36 landsleiki fyrir Ísland missir af vináttuleikjum Íslands í júní og næstu leikir Íslands í undankeppni HM 2022, sem verða spilaðir í haust eru í hættu. „Ég held að menn tali alltaf um allavega sex mánaða bataferli. En svo eru auðvitað dæmi um fólk sem hefur jafnað sig á skemmri tíma. Vonandi verð ég bara í þeim hópi, þannig ég verði klár í slaginn aftur í september,“ sagði Hörður, greinilega ekki búinn að útiloka þátttöku í landsleikjunum í haust.

Bjartsýnn þrátt fyrir allt

„Verður maður ekki alltaf að vera bjartsýnn? Ef maður er það ekki nær maður ekki neinu. En maður tekur auðvitað bara einn dag í einu. Vonandi gengur endurhæfingin vel og ég fái þá að sjá mikinn bata á nokkrum vikum. Það er mín ósk. En auðvitað gæti þetta tekið lengri tíma, og þá er það bara þannig,“ sagði Hörður.

Það hjálpar Herði að takast á við meiðslin að vera jákvæður og bjartsýnn maður að eðlisfari. „Það hafa margir í kringum sig verið miður sín. Þannig ég hef nú frekað verið að peppa fólk áfram, frekar en að detta niður í einhverja sorg með því. Ég nota bara mína bjartsýni, því þetta er bara verkefni sem maður þarf að klára. Þegar það er svo búið verður maður bara ennþá betri og sterkari.“

„Ég er ekkert unglamb lengur“

Hörður hefur verið frekar heppinn með meiðsli á ferlinum og því lítið þurft að takast á við langvinn meiðsli. Ástandið núna er því nokkuð nýtt fyrir hann. „Þetta eru eiginlega bara önnur meiðslin mín sem hafa verið eitthvað. Þegar ég var nýkominn til Ítalíu í atvinnumennsku á sínum tíma meiddist ég á hné og þurfti að fara í aðgerð og það tók einhverju sjö mánuði að ná mér. En annars hef ég verið frekar laus við meiðsli. Þannig þetta er bara í annað sinn sem ég þarf að fara í aðgerð. Kannski var kominn tími á einhver smá meiðsli núna, sem yrði þá allt í lagi ef ég slepp við þau alveg næstu árin þá í staðinn. Maður þarf bara að hugsa vel um sig núna. Ég er orðinn 28 ára þannig ég er ekkert unglamb lengur. Það er því mikilvægt að hugsa enn betur um sig en maður hefur gert,“ sagði Hörður Björgvin Magnússon þegar hann ræddi við RÚV í dag.

Tengdar fréttir

Fótbolti

Hörður Björgvin með slitna hásin