Tilkynnt um 60 alvarleg atvik í fyrra

07.04.2021 - 10:56
Mynd með færslu
 Mynd: Beggi - RÚV
Embætti landlæknis fékk sextíu tilkynningar um alvarleg óvænt atvik í fyrra. Það sem af er árinu 2021 hafa 18 atvik verið tilkynnt. Þetta kemur fram í svari landlæknis við fyrirspurn fréttastofu.

Dæmi um atvik sem landlæknir hefur haft til rannsóknar á árinu 2020 eru andlát í kjölfar byltu, andlát eða alvarlegir fylgikvillar í kjölfar aðgerðar eða meðferðar, sjálfsvíg og atvik tengd lyfjaávísunum og lyfjagjöfum. Flest atvik sem tilkynnt voru í fyrra áttu sér stað á sjúkrahúsum og hjúkrunarheimilum.

Samkvæmt lögum um landlækni og lýðheilsu er skylt að tilkynna alvarleg óvænt atvik sem upp koma í heilbrigðisþjónustu til Embættis landlæknis. Óvænt atvik er notað yfir óhappatilvik, mistök, vanrækslu eða önnur atvik sem valdið hafa sjúklingi tjóni eða hefðu getað valdið sjúklingi tjóni.

 

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV