Tilefni til að endurskoða lög um opinber fjármál

07.04.2021 - 17:25
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Sigurðsson - RÚV
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir tilefni til að endurskoða lög um opinber fjármál í ljósi reynslunnar af COVID19. Efnahagslegar afleiðingar faraldursins hafi verið prófsteinn á lögin. Katrín sagði á ársfundi Seðlabankans í dag að lögin hefðu bætt stefnumótun og langtímaáætlanir. Hins vegar hefði óvissan í upphafi faraldurs orðið til þess að fresta þurfti framlagningu fjármálaáætlunar og víkja til hliðar tímabundið fjármála- og skuldareglum sem er að finna í lögum um opinber fjármál.

„Við höfum núna tilefni og efnivið til að meta reynsluna og ræða hvort umgjörðin sem sett er um opinber fjármál í lögunum þjóni tilgangi sínum og tryggi nægjanlegan sveigjanleika,“ sagði Katrín. „Þau sjónarmið komu meðal annars fram hjá þeirri sem hér stendur við afgreiðslu laganna á sínum tíma og þau sjónarmið hafa svo sannarlega birst á þessu kjörtímabili þar sem hefur þurft að taka upp fjármálaáætlanir og fjármálastefnu nokkuð reglulega.“

60 ára Seðlabanki

Seðlabankinn fagnar nokkrum afmælum í ár. 60 ár eru í dag síðan Seðlabankinn tók til starfa. Fyrr á þessu ári voru 40 ár frá myntbreytingunni 1981 þegar tvö núll voru tekin aftan af krónunni og nýir seðlar og mynt litu dagsins ljós. Tuttugu ár eru svo í ár frá því verðbólgumarkmið Seðlabankans voru tekin upp sem megin stefnumið bankans.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði að lengst af starfstíma sínum hefði Seðlabankinn ekki haft neitt raunverulegt umboð til að beita sér gegn verðbólgu. Það hefði breyst. „Það er enginn vafi á því að verðbólgumarkmið er framtíðarfyrirkomulag peningamála á Íslandi.“

Ásgeir nefndi svo fjórða afmælið, eins árs afmæli sameiningar Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins. Hann rifjaði upp að forverar sínir í embætti hefðu lagst gegn því 1998 að bankaeftirlitið yrði aðskilið frá Seðlabankanum og sett í aðra stofnun Fjármálaeftirlitið. Það hefði svo verið eitt helsta atriðið sem erlendir aðilar bentu á sem orsakir hrunsins að enginn einn aðili hefði haft yfirsýn, afl eða umboð til að bregðast við viðsjárverðri stöðu í starfsemi fjármálastofnana.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV