Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Þórólfur: Ekki ferðast til útlanda að nauðsynjalausu

Mynd með færslu
 Mynd: Ljósmynd/Almannavarnir
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir ítrekar ráðleggingar gegn nauðsynjalausum ferðalögum íbúa á Íslandi til áhættusvæða vegna COVID-19. Öll lönd nema Grænland eru nú skilgreind sem áhættusvæði. Þetta kemur fram í nýrri tilkynningu frá sóttvarnalækni. 

„Á rúmlega einu ári heimsfaraldurs COVID-19 hafa yfir 130 milljónir manna sýkst af völdum SARS-CoV-2 veirunnar í meira en 200 löndum og dauðsföll eru tæplega 3 milljónir, þar af yfir 900 þúsund dauðsföll í Evrópu,“ segir í tilkynningunni. Þar er bent á að öll lönd og svæði heims nema Grænland séu skilgreind af sóttvarnalækni sem áhættusvæði og að áhættumat sóttvarnalæknis sé í samræmi við áhættumat Sóttvarnastofnunar Evrópu. 

Sóttvarnalæknir minnir á að í mörgum löndum Evrópu sé smittíðni há eða mjög há með dreifingu á nýjum afbrigðum veirunnar, ekki síst því breska. „Bólusetning er enn skammt á veg komin í mörgum ríkjum og því eru ýmsar ferðatakmarkanir í gildi sem og takmarkanir innanlands í flestum löndum sem oft breytast með skömmum fyrirvara,“ segir í tilkynningunni.

Þórólfur lýsti í gær áhyggjum sínum af því að smit kæmist yfir landamærin og hleypti af stað nýrri bylgju faraldursins, ef takmarkanir á landamærum yrðu ekki hertar. Hann minnti á mikilvægi þess að fólk færi eftir reglum um sóttkví og að upphaf þriðju bylgju faraldursins hér á landi væri rakið til tveggja einstaklinga sem brutu reglur um sóttkví eftir komuna til landsins.