Mikil gasmengun í Njarðvík í morgun

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mikil gasmengun frá jarðeldunum í Geldingadölum mældist í Njarðvík í morgun, eða um tvö þúsund míkrógrömm á rúmmetra. Þegar svo mikil mengun mælist eiga börn að halda sig sem mest innandyra og íbúar að loka gluggum. Mengunin er nú mun minni en fólk er hvatt til að fylgjast vel með.

„Þetta er í annað skiptið núna í þessu gosi sem við sjáum svona há gildi. Hitt var í Vogum fyrir tveimur dögum en á báðum stöðum stóð þetta mjög stutt. Þetta breytist mjög hratt eftir vindátt þannig að bara tíu mínútum, korteri seinna, getur þetta farið úr 2.000 niður í 20 þess vegna, og það sýndi sig í morgun. Þetta gekk yfir á svona hálftíma,“ segir Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun.

Mengun hefur einnig mælst í Vogum í morgun og líklegt er að vart verði við gas víðar norðvestur af gosstöðvunum í dag. Þá gæti gas mælst í Grindavík þegar snýst í norðaustanátt í nótt.

„Fólk þarf bara að fylgjast mjög vel með, bæði með dreifingaspá Veðurstofunnar og svo með loftgæðamælingunni hjá okkur. Ef það eru svona há gildi þá verður fólk að reikna með því að það geti verið ástandið allavega þann dagspartinn og miða útiveru við það, þó það sé ekki endilega hátt akkúrat þegar þú ert að fara út,“ segir Þorsteinn.

Þar sem upptök jarðeldanna eru nálægt byggð getur lítil breyting á vindátt breytt miklu hvað mengunina varðar. „Það er svolítið erfitt að gefa út stöðugar tilkynningar vegna þess að þær eru kannski nokkrar á dag og mismunandi frá klukkutíma til klukkutíma,“ segir hann.

Til greina kemur að senda smáskilaboð til íbúa svæða þar sem mengun fer yfir hættumörk. „Kerfið hjá okkur ræður ekki alveg við það eins og er. Almannavarnir hafa getað sent út SMS á ákveðin svæði. Það er eitthvað sem þarf að skoða betur en það þyrfti þá að gera það oft á dag til að uppfæra síðustu tilkynningu,“ segir Þorsteinn.