Líklega einn stærsti frímerkjastuldur sögunnar

Mynd: Björn B. Björnsson / Leyndarmálið

Líklega einn stærsti frímerkjastuldur sögunnar

07.04.2021 - 16:05

Höfundar

Í Leyndarmálinu, nýrri íslenskri heimildamynd eftir Björn B. Björnsson, segir níræður frímerkjakaupmaður frá hálfrar aldar leyndarmáli. Í kjölfarið er sett af stað rannsókn sem beinist að því að finna manninn sem seldi eitt dýrasta umslag heims frá Íslandi árið 1972. Myndin er á dagskrá RÚV í kvöld.

Árið 1973 fór fram lögreglurannsókn á hver hefði stolið einu verðmætasta umslagi í heimi frá Kiðjabergi í Grímsnesi. Umslagið, sem er með mörgum sjaldgæfum frímerkjum, er kallað Biblíubréfið og er í dag metið á um 200 milljónir króna. Ekki tókst lögreglu að upplýsa málið á sínum tíma en eigandi bréfsins nú er sænski greifinn og frímerkjasafnarinn Douglas Storckenfeldt.

Mynd með færslu
 Mynd: Steingrímur Dúi - RÚV
Bréfið er metið á um 200 milljónir króna.

Björn B. Björnsson kvikmyndagerðarmaður var á ferðalagi með tengdaföður sínum Haraldi Sæmundssyni í Víetnam fyrir nokkru. Stóran hluta ævi sinnar var Haraldur frímerkjakaupmaður í Reykjavík og rak hann fyrirtækið Frímerkjamiðstöðina á Skólavörðustíg. Á ferðalagi tengdafeðganna trúði Haraldur Birni fyrir því leyndarmáli sem hann hafði þá þagað yfir í hálfa öld, sjálfri sögunni af viðskiptum sínum með Biblíubréfið. Saga Haraldar varpar nýju ljósi á hvaðan bréfið gæti hafa komið en uppruni þess hefur verið óþekktur fram að þessu.

Frásögn hans bendir til að bréfið kunni að hafa verið stolið og ef svo er þá er það einn stærsti frímerkjastuldur sögunnar. Haraldur féllst á að leyfa Birni að taka frásögn sína upp með það í huga að hann myndi í kjölfarið rannsaka málið til að komast að því hvort grunur hans um hver seldi bréfið væri réttur. Það sem réði mestu um að Haraldur féllst á að sagan yrði gerð opinber var að maðurinn sem hann telur að hafi átt bréfið lést árið 2002 og á enga afkomendur. Greint er frá sögu Haraldar og rannsókninni sem hún setti af stað í heimildamyndinni sem er á dagskrá á RÚV í kvöld klukkan 20:00.

Tengdar fréttir

Biblíubréfið flutt í fylgd lögreglu