Laxá í Aðaldal flæðir yfir bakka sína

07.04.2021 - 23:52
Mynd með færslu
 Mynd: Hrund Benediktsdóttir
Miklar krapastíflur eru nú í Laxá í Aðaldal. Hefur áin flætt yfir bakka sína á nokkrum stöðum og yfir tún og girðingar. Flóðið virðist vera í rénun eins og sakir standa. Benedikt Kristjánsson, bóndi á bænum Hólmavaði í Aðaldal, óttast að miklar skemmdir hafi orðið á túnum og á einum stað náði flóðið að gistiskála skammt frá bænum.
Mynd með færslu
 Mynd: Hrund Benediktsdóttir

„Hún hefur flætt hérna vestur með túninu upp á túnið og alveg vestur og upp undir þjóðveg hérna að heiman. Og svo hérna sunnanvið þar sem þjóðvegurinn er yfir landið þar er hún báðum megin við þjóðveginn og þar er allt á bólakafi,“ ,“ segir Benedikt. Hann segir hús ekki hafa verið í hættu. „Þau eru það ofarlega. Þau eru byggð það hátt. En fór þetta nálægt húsunum? Já hérna við mitt íbúðarhús er svona sex metrar í húsið og við gamla þinghúsið hérna neðan við, þar var þetta alveg komið upp að palli sem er við húsið en húsin sluppu, eins og staðan er í dag.“

Mynd með færslu
 Mynd: Hrund Benediktsdóttir
Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV