Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hald lagt á ökutæki vegna andlátsins í Vindakór

07.04.2021 - 11:57
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RUV
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt hald á eitt ökutæki í tengslum við rannsókn á máli manns sem lést á Landspítalanum á laugardag eftir að hafa fengið alvarlega höfuðáverka fyrir utan heimili sitt á föstudaginn langa. Lögreglan rannsakar nú hvort áverkarnir voru veittir af ásetningi eða hvort þetta var gáleysisbrot.

Þetta staðfestir Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við fréttastofu.  Hann segir að bráðabirgðaniðurstaða réttarmeinafræðings liggi ekki fyrir en von sé á henni á næstunni.

Rúmenskur karlmaður á þrítugsaldri var um helgina úrskurðaður í gæsluvarðhald til föstudags í tengslum við málið. Verjandi hans sagði við fréttastofu á páskadag að skjólstæðingur hans segði þetta hafa verið slys og að hann væri niðurbrotinn vegna málsins. Hann hefði ekki haft hugmynd um að Íslendingurinn hefði slasast alvarlega.

Margeir vildi ekki tjá sig um hvort einhver hefði orðið vitni að því sem gerðist en sagði að lögreglan hefði rætt við íbúa og því yrði haldið áfram. Samkvæmt heimildum fréttastofu er lögreglan meðal annars að rannsaka hvort ekið hafi verið á manninn.  Margeir staðfestir að lögreglan hafi lagt hald á eitt ökutæki sem sé nú til rannsóknar en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um það.