Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Gosið gæti allt eins opnast á fleiri stöðum

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Nýja gossprungan sem opnaðist í nótt á gosstöðvunum er hluti af um eins kílómetra sprungu sem nær úr Geldingadölum í norðaustur. Gasmælitæki og fleira nærri gosinu eru dottin úr sambandi. Ný gönguleið hefur verið stikuð og mega þeir sem ætla að gosinu aðeins ganga þá leið. 

Eldgosið hefur bara stækkað til norðausturs

Kristín Jónsdóttir fagstjóri náttúruvár á Veðurstofu Íslands segir allar sprungurnar liggja á sumu línu:  

„Það má í rauninni segja að gosið hafi bara stækkað til norðausturs. Fyrst hleypur það þarna alveg 700 metra til norðausturs og svo fyllir það þarna inn í skarðið á milli þessara gosstöðva í nótt,“ segir Kristín.

Búist þið þá við að það opnist allt, bara 700 metra sprunga alveg frá þar sem það byrjaði og þar sem það kom í fyrradag?

Það gæti alveg gerst en það þarf ekki að gera það. En auðvitað er svæðið þarna á milli, það er varasamt.“

Ekki á að ganga neins staðar á milli gosanna, segir Kristín Jónsdóttir, því þar eru sprungur. Jarðvísindamenn eru líka að fylgjast með sprungum lengra í norðaustur frá gosinu sem upp kom í fyrradag. Kristín segir hugsanlegt að þar fari að gjósa þegar fram í sækir.

Hraunkvikan sem upp kemur núna kemur öll úr sömu gosrás. Gervihnatta- eða Insarmyndir sýna að grunnstæð kvika er á eins kílómetra kafla frá Geldingadölum “í norðaustur. 

Líklega rann hraun yfir rafmagnssnúru

Kristín segir að þegar horft sé á beint streymi úr Geldingadölum virðist sem dregið hafi úr gosi þar. Bíða þurfi eftir mælingum til að geta slegið því föstu. Í heildina sé virkni þó meiri: 

„Það virðist vissulega vera þannig að það sé hreinlega meira hraun og þar með gas líka að koma upp núna.“

Ekki liggur fyrir hve mikið kemur upp núna en nefnt hefur verið að það séu allt að tíu rúmmetrar á sekúndu. Að minnsta kosti eitt brýnt verkefni liggur þó fyrir í dag: 

„Það þarf fyrst og fremst að bjarga mælitækjum sem að eru þarna ansi nálægt. Það er orðið sambandslaust þarna við gasmælitæki sem er ansi nálægt sem á að reyna að bjarga. Fólkl hefur líka eflaust tekið eftir því að mbl-vefmyndavélin hún er hætt að senda. Það hefur líklega runnið hraun yfir rafmagnsnúru sem lá þarna á milli rafstöðvar og myndavélarinnar.“

Ný gönguleið svo hægt sé að sjá "öll gosin"

Gönguleið á gosstöðvarnar er opin. Búið er að stika nýja leið, sem heitir leið A. Það má ekki ganga aðrar leiðir. Þessi á að vera vel merkt. Hún byrjar á sama stað og sú gamla. Nú þarf ekki að fara í kaðlabrekkuna heldur hefur auðveldari leið verið stikuð rétt hjá. Ekki er gengið alveg inn í Geldingadali þar sem gýs heldur sveigir leiðin gegnum skarð í austur og heldur svo áfram í norðaustur. Við enda leiðarinnar er hægt að sjá allar sprungurnar sem gýs úr. 

Mynd með færslu
 Mynd: Ljósmynd/Landsbjörg
Nýja gönguleiðin.