Gas gæti mælst í Grindavík seint í kvöld

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Vindátt gæti snúist í vaxandi norðaustanátt í kvöld og við það gæti mengun frá Geldinga- og Meradölum borist yfir til Grindavíkur. Þorsteinn Jóhannsson, jarð- og umhverfisfræðingur, bendir íbúum í Grindavík, Njarðvík og Vogum á að fylgjast vel með loftgæðum á síðunni loftgaedi.is og forðast útivist þegar mengunargildi eru há. Rætt var við hann í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.

Gas mældist í Njarðvík og Vogum í morgun og Þorsteinn segir að loftgæðin hafi verið nokkuð slæm í Njarðvík. Við slíkar aðstæður eigi fólk almennt að forðast áreynslu utandyra, og sérstaklega börn. Tilmælin séu ólík eftir aldri og heilsufari.

Geta farið svo eitruð ský yfir til Grindavíkur eða Njarðvíkur að það svífi á fólk, eða þynnist þetta á leiðinni?

„Já, þetta þynnist mjög á leiðinni. Og við búumst ekki við eins háum gildum og er verið að mæla upp við gosið. Þarna upp við gosstöðvarnar þarf að hafa gasgrímu tiltæka. En við byggð erum við ekki að búast við lífshættulegum gildum en sannarlega gildum sem fólk sem er viðkvæmt fyrir, með astma, finnur fyrir. Það þarf þá kannski að taka astmalyf. Og við reynum að forðast að útsetja börn fyrir þessu og til að forðast útsetningu þarf að huga að tíma úti við, og ekki fara á hlaupaæfingu eða spila fótbolta. Frekar halda sig inni og slökkva á loftræstingu og ef einhver grunur er um mengun eiga börn ekki að sofa úti í vagni.“

Er meiri mengun eftir að nýju sprungurnar opnuðust?

„Við sjáum það kannski ekki alveg strax hvort það sé meiri mengun, en það er alveg lógískt að meiri kvika þýði meiri gaslosun og þar af leiðandi meiri mengun í byggð.“