Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Fullbólusettir gengu út úr Höllinni í dag

Mynd: RÚV / Skjáskot
Von er á um 4.000 manns í kórónuveirubólusetningu með bóluefni Pfizer í Laugardalshöll í dag. Sumir eru að fá sína fyrstu sprautu og aðrir þá síðari. Þetta er 58. dagurinn sem er bólusett gegn COVID-19 hér á landi síðan bólusetningar hófust hér í lok desember.

Tugir fólks voru við störf í Laugardalshöll skömmu fyrir hádegi í morgun, heilbrigðisstarfsfólk og lögreglumenn.

Sigríður Dóra Magnúsdóttir umdæmislæknir sóttvarna og framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sagði að framkvæmdin hefði gengið vel, en stærstur hluti þeirra sem fékk bóluefnið í dag var fólk fætt árin 1943-'45 sem nú fékk sína aðra sprautu.

Heilbrigðisstarfsfólk á sjálfstætt starfandi stofnunum var einnig komið í Laugardalshöll og einnig til að fá bóluefni Pfizer, en í þeim hópi var um fyrstu bólusetningu að ræða.