Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Fólkið sem kærði reyndist neikvætt í seinni skimun

Sóttkvíarhótel
 Mynd: RÚV - Skjáskot
Landsréttur komst síðdegis að þeirri niðurstöðu að sóttvarnalækni hefði skort lögvarða hagsmuni af því að dómurinn leysti úr kæru vegna sóttvarnahótelsins í Þórunnartúni. Horfði dómurinn meðal annars til þess að fólkið sem kærði hefði yfirgefið sóttvarnahúsið, heilbrigðisráðuneytið hefði brugðist við úrskurði héraðsdóms með því að gera þeim sem þar dvöldu grein fyrir því að þeir mættu fara og að sóttkví fólksins væri lokið. Þá gekkst það undir seinni skimun í morgun og reyndist neikvætt.

Úrskurðir Landsréttar voru birtir nú í kvöld. Þeir eru fjórir og snúast um foreldra og tvö börn þeirra.

Með úrskurðum Landsréttar fylgir ítarlegri úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur en áður hefur birst þar sem mál fjölskyldunnar er rakið en þinghaldið var lokað þegar það var tekið fyrir í héraði.

Í úrskurði héraðsdóms kemur meðal annars fram að foreldrarnir fóru þess á leit að þeim yrði umsvifalaust leyft að yfirgefa sóttvarnahótelið í Þórunnartúni og leyft að fara í sóttkví í sumarbústað fjölskyldunnar eða lögheimili sínu í Reykjavík. 

Foreldrarnir hétu því við drengskap sinn að þeir myndu fara að einu og öllu að sóttvarnafyrirmælum stjórnvalda. Þeir hefðu enda reynslu af því; annað foreldrið hafði í tvígang verið í sóttkví en hitt þrisvar. „Aldrei hafa nein brot, vandræði eða smit komið upp því tengdu.“ 

Fjölskyldan er búsett í tveimur löndum en er með lögheimili á Íslandi. Annað foreldrið er í launuðu starfi á Íslandi og þótt það komi ekki skýrt fram í úrskurði héraðsdóms virðist starfið vera þess eðlis að nauðsynlegt var að passa upp á allar sóttvarnir.  „Það gefur auga leið að hún tekur ábyrgð sína og skyldur er varða sóttkví og sóttvarnir afar alvarlega, ekki bara í sínu eigin tilfelli heldur í tilfelli okkar fjölskyldunnar allrar.“

Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á mánudag á kröfur fjölskyldunnar um að fella ákvörðun sóttvarnalæknis úr gildi og leyfa þeim að vera í sóttkví heima hjá sér. Sóttvarnalæknir undirbýr nú nýtt minnisblað um aðgerðir á landamærunum og verður því skilað til heilbrigðisráðuneytisins á morgun eða hinn.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV