Fær alltaf fiðring í magann í beinni

Mynd:  / RÚV

Fær alltaf fiðring í magann í beinni

07.04.2021 - 12:56

Höfundar

Stórsöngvarinn Björgvin Halldórsson verður 70 ára föstudaginn 16. apríl og fagnar því með tónleikum í beinu streymi. Björgvin segist fá fiðring í magann áður en hann stígur á svið þrátt fyrir að engir áhorfendur verði í salnum.

Undirbúningur fyrir tónleikana stendur sem hæst og Björgvin segir að stefnan sé sett á flotta tónleika. Hann er ekki óvanur streymistónleikum því árlegum jólatónleikum hans var streymt fyrir síðustu jól. „Það gekk æðislega vel. Streymt um land og mið og út í heim. Það gekk vel og við erum auðmjúk og þakklát fyrir það,” segir Björgvin í viðtali við Síðdegisútvarpið á Rás 2.

Það kom aldrei til greina að sleppa afmælistónleikunum þrátt fyrir samkomubann. Björgvin hélt afmælistónleika fyrir fullum sal í Háskólabíói þegar hann varð sextugur. „Það var náttúrulega alveg æðislegt. Það jafnast ekkert á við að hafa fólk í salnum. En nú er tímarnir aðrir. Nú erum við með fólkið heima í stofu. Þetta er á föstudegi, 16. apríl, afmælisdeginum mínum. Við bjóðum í afmælið og erum með svakalega fína gesti, flotta hljómsveit og það verður ekkert slegið af,” segir Björgvin.

Tónlistarfólk hefur farið illa út úr kórónuveirufaraldrinum en Björgvin segir að það sé nauðsynlegt að leita að tækifærum í þessu ástandi. „Við og Sena Live höfum tekið þá ákvörðun að fara út í djúpu laugina aftur. Það gekk mjög vel síðast. Við ætlum að gera þetta aftur. Þetta er mjög spennandi. Þetta er í beinni, þetta er ekki tekið upp á undan,” segir Björgvin.

Björgvin segist nánaðst þurfa að hafa miðilshæfileika til að tengjast áhorfendum í gegnum sjónvarpsskjáinn þar sem salurinn verði tómur en eins og á jólatónleikunum verður hann í sambandi við áhorfendur í gegnum Zoom. Það sé ekkert annað í stöðunni en að senda góða strauma í gegnum skjáinn enda viti hann að fólkið sé að horfa. 

Samkomubannið hefur því ekkert dregið úr spennunni fyrir tónleikana. „Þetta er mjög spennandi, maður fær alltaf fiðring í magann þegar maður er í beinni. Eins og þegar það er fullur salur af fólki, þá er sami fiðringurinn þetta er bara öðruvísi fiðringur og er bara góður.,” segir Björgvin.

Miðasala á tónleikana er á tix.is. Auk Björgvins kemur fjöldi gestasöngvara fram á tónleikunum. Má þar nefna Jóhönnu Guðrúnu, GDRN og auðvitað börnin hans Björgvins, Svölu og Krumma. Björgvin segir að fólk sé líka farið að kunna á þetta streymi á Íslandi. „Fólk getur streymt þessu í gegnum sjónvörpin sín. Það er bara einn miði sem gildir fyrir fólkið í kúlunni heima, það er bara einn miði og hann er ekki dýr. Ég finn það, og við finnum það, að það er spenningur,” segir Björgvin.

Tengdar fréttir

Tónlist

Hafinn til skýjanna og rifinn niður í blöðunum

Popptónlist

Fyrsta myndin af litlum gutta með upprifið tré í ólátum