Elvar - Daydreaming

Mynd: Elvar / Daydreaming

Elvar - Daydreaming

07.04.2021 - 13:45

Höfundar

Tónlistarmaðurinn Elvar gaf út plötuna Daydreaming í apríl árið 2019. Þar blandar hann saman poppi sjöunda áratugsins, sækadelíu, folk-tónlist, rokki tíunda áratugarins og fær út nútímalegan indí-bræðing. Platan er ein af þessum plötum sem fara hægt af stað en hefur smám saman vakið athygli og hylli á Spotify og meðal tónlistarunnenda.

Daydreaming er fyrsta plata Elvars Þórs Hjörleifssonar og inniheldur ellefu frumsamin lög og texta eftir hann sjálfan. Platan var að mestu leyti tekin upp í stúdíói Péturs Ben en söngur og einhver kassagítar í heimahúsum en trommur, klukkuspil og harpsíkord var tekið upp í Sundlauginni í Mosfellsbæ.

Magnús Öder mixaði plötuna og Glen Shick masteraði, Saga Sig tók ljósmyndir og Arnþór Guðmundsson hannaði umslag plötunnar sem Elvar gefur út sjálfur.

Að sögn Elvars er ýmiss konar stefnur að finna á Daydreaming og ekki lagt upp með að taka upp plötu í einhverjum ákveðnum stíl. Heldur vildi Elvar velja bestu lögin sín og gera þau eins og vel og hann gat með hjálp Péturs Ben. Helstu áhrif og innblástur koma hins vegar frá poppi sjöunda og áttunda áratugarins, folk-tónlist, rokki og óháðri rokktónlist síðari ára. Sem helstu áhrifavalda nefnir Elvar The Beatles, David Bowie, Neil Young, Nick Drake, Elliott Smith og Arcade Fire.

Elvar hefur lagt stund á tónlist frá því hann man eftir sér þriggja ára á fiðlu hjá Suzuki-skólanum en síðar skipti hann yfir í gítar hjá FÍH og lærði hljóðvinnslu í London Music School í Hackney í London.

Plata Elvars, Daydreaming, er plata vikunnar á Rás 2 og heyrist þar reglulega þessa viku auk þess að vera aðgengileg í heild sinni ásamt kynningum Elvars á lögum plötunnar í spilara.

Mynd með færslu
 Mynd: Elvar - Daydreaming
Elvar - Daydreaming