Einn látinn og eins saknað í Halmstad

07.04.2021 - 05:12
Mynd með færslu
 Mynd: svt
Maður fannst alvarlega særður fyrir utan brennandi fjölbýlishús í borginni Halmstad í Svíþjóð í gærkvöld. Sænska ríkissjónvarpið SVT hefur eftir talsmanni lögreglu að tilkynnt hafi verið um átök og eldsvoða um hálf tíu í gærkvöld að staðartíma.

Maðurinn var með stungusár, og lést hann af sárum sínum á sjúkrahúsi í gærkvöld. Karlmaður á fertugsaldri var handtekinn í gær vegna málsins. 

SVT hefur eftir vitnum að bíl hafi verið ekið að fjölbýlishúsinu í gærkvöld. Einn maður fór út úr bílnum að þeirra sögn, og kastaði einhverju í átt að húsinu. Skömmu síðar varð sprenging og eldur kviknaði í húsinu. Peter Adlersson, talsmaður lögreglunnar, segir ekki ljóst hver upptök eldsvoðans voru.

Búið er að rýma um þrjátíu íbúðir í húsinu. Um klukkan fjögur í nótt var eins íbúa saknað. Sá er sagður vera enn þá inni í húsinu. Ekki hefur tekist að slökkva eldinn, en Stefan Rane, stjórnandi slökkviliðsins á vettvangi, sagði að búið væri að ná tökum á honum. Slökkvilið verður á staðnum fram eftir degi, að hans sögn.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV