Danshöfundar á TikTok fái verðskuldaða viðurkenningu

Mynd með færslu
 Mynd: The Tonight Show Starring Jimmy  - YouTube

Danshöfundar á TikTok fái verðskuldaða viðurkenningu

07.04.2021 - 12:17

Höfundar

Spjallþáttastjórnandinn Jimmy Fallon kom af stað bylgju netmótmæla í lok marsmánaðar þegar hann fékk TikTok-stjörnuna Addison Rae til að dansa vinsæla TikTok dansa í þætti sínum The Tonight Show. Fallon og Rae eru gagnrýnd fyrir að veita danshöfundunum ekki þá viðurkenningu sem þau þóttu eiga skilið.

Samfélagsmiðillinn TikTok, sem snýst í megindráttum um að birta myndbönd, hefur frá upphafi verið aðsetur fjölmargra dansa sem hafa notið mismikilla vinsælda. Danshöfundar keppast við að semja dansa við vinsæl lög í þeirri von að notendur forritsins api eftir þeim og breiði dansinn út til að margfalda fylgjendafjölda sinn. 

Addison Rae er meðal þeirra sem hafa gert TikTok að atvinnu. Hún er 21 árs og byrjaði að birta myndbönd á miðlinum í júlí 2019. Dansmyndbönd hennar urðu fljótt vinsæl en hún er í dag með rúmlega 79 milljónir fylgjenda á miðlinum og situr í öðru sæti yfir þá sem hafa flesta fylgjendur. Nýlega ákvað hún að fara út í tónlist og gaf út fyrsta lagið sitt í byrjun mars. Það var raunar ástæða þess að hún kom fram í þættinum hjá Jimmy Fallon. Auk þess að flytja lagið dansaði hún átta vinsæla TikTok-dansa í þættinum. 

Netverjar voru ekki par sáttir með framgöngu Fallons og Rae og gagnrýndu þau fyrir að nefna danshöfundana hvergi á nafn. Svo vill auk þess til að stór hluti þeirra sem sömdu dansana sem Rae dansaði eru svartir og mörgum þótti ekki sanngjarnt að hún kæmi þarna ein fram og liti út fyrir að hafa samið dansana sjálf. 

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem svartir danshöfundar þurfa að berjast fyrir því að vera titlaðir höfundar vinsælla TikTok-dansa. Síðastliðið sumar börðust margir þeirra fyrir því að stjörnur á miðlinum tögguðu í það minnsta höfunda dansanna sem þær dönsuðu. Þessi barátta sprettur ekki upp að ástæðulausu því að dansar eru orðnir meira en bara léttvæg skemmtun á forritinu. Þeir eru orðnir leið til þess að græða peninga og að öðlast frægð. 

Þetta mál komst fyrst í hámæli þegar vinsælasta stjarna forritsins, Charli D'Amelio, birti svokallaðan Renegade-dans sem varð í kjölfarið gífurlega vinsæll. Danshöfundurinn er Jalaiah Harmon, 14 ára svört stelpa frá Atlanta, sem fékk loks viðurkenningu fyrir verk sitt þegar viðtal við hana birtist í New York Times. Þar sagði hún meðal annars:

„Ég var glöð yfir því að dansinn minn var úti um allt en ég vildi fá viðurkenningu á að ég hefði samið hann.“

Upprunalega myndbandið frá Harmon má sjá hér fyrir neðan.

Margir af stærri áhrifavöldunum á miðlinum virtust taka þetta til sín og fóru að merkja höfunda dansanna í myndböndum sínum. Það var því bakslag þegar Addison Rae kom fram hjá Jimmy Fallon án þess að minnst væri á höfunda þeirra dansa sem hún dansaði. Fallon svaraði gagnrýninni í nýjasta þætti sínum með því að ræða við stóran hluta danshöfundanna og gefa þeim færi á að dansa dansana í sinni útgáfu. 

Fallon viðurkenndi mistökin og sagðist átta sig á að höfundarnir ættu skilið að fá sitt augnablik í sviðsljósinu. Hann ræddi því næst við Mya Nicole Johnson og Chris Cotter sem gerðu dansinn við lagið Up, Dorien Scott sem á heiðurinn af dansinum við lagið Corvette Corvette, Fur-Quan Powell og Camyra Franklyn, höfunda Laffy Taffy, félagana Adam Snyder, Nate Nale og Greg Dhal sem gerðu dansinn ódauðlega við lag The Weeknd, Blinding Lights, og Keara Wilson sem samdi dansinn við Savage.

Höfundarnir virtust vera þakklátir fyrir tækifærið til að láta ljós sitt skína. Þau ræddu uppruna dansanna við Fallon, sögðu frá því hvernig þau fengu innblástur og viðbrögðum sínum þegar hugverk þeirra fór eins og eldur í sinu um internetið. Addison Rae sýndi líka sinn stuðning með því að deila myndbandinu á Instagram-síðu sinni, sagðist vera ánægð með að þessir höfundar hefðu loks fengið viðurkenningu og vonast til að þau gætu öll dansað saman fljótlega. 

 

Tengdar fréttir

Tækni og vísindi

TikTok: Forrit sem elur upp nýja kynslóð

Tækni og vísindi

TikTok bætir stillingar til að auka friðhelgi barna

Samfélagsmiðillinn Tiktok heldur sinn eigin tískumánuð

Þykjast vera fórnarlömb helfararinnar