Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Bólusetningin eins og ferming og jól

Mynd: Óðinn Svan Óðinsson / RÚV
Þetta er eins og að vera nýfermd, sagði kona sem fékk seinni kórónuveirubólusetninguna í dag. Um tíu þúsund verða bólusett í vikunni með þremur bóluefnum og aldrei hafa fleiri verið bólusettir á einum degi á Akureyri. Um 4.000 fengu bólusetningu með bóluefni Pfizer í Laugardalshöll.

Þetta er 58. dagurinn sem er bólusett gegn COVID-19 hér á landi síðan bólusetningar hófust hér í lok desember. 

Flestir sem fengu seinni sprautuna í Laugardalshöll í dag eru fæddir árin 1943-'45. Þá fengu heilbrigðisstarfsmenn á sjálfstætt starfandi stofnunum sína fyrri Pfizer-sprautu. Byrjað var að blanda bóluefnin klukkan sjö í morgun og tugir heilbrigðisstarfsmanna og lögreglumanna voru við störf í Laugardalshöll. 

Meðal þeirra sem fengu síðari sprautuna í Laugardalshöll í gær var Ingunn Ósk Benediktsdóttir.  „Þetta er eins og að vera fermdur - nýfermdur,“ sagði Ingunn Ósk að lokinni bólusetningu.

Hefur það einhver áhrif á þitt líf að vera komin með fulla bólusetningu? „Bara gleði og þakklæti. Ég gæti farið eitthvað til útlanda, í maí kannski.“

„Mér finnst þetta meiriháttar,“ sagði Eyjólfur Guðmundsson sem einnig var að fá sína síðari bólusetningu með bóluefni Pfizer. Í sama streng tók Bjarni Hólm Hauksson. „Þetta eykur náttúrulega frelsi manns og öryggi. Alveg frábært.“

Ætlarðu að leggjast í ferðalög? „Ég er búinn að panta til Madeira í haust, svo bara njóta innanlands í sumar,“ sagði Bjarni Hólm.

Inga Karólína Guðmundsdótti sá fram á að geta umgengist fleira fólk eftir að hafa fengið síðari bólusetninguna. „Nú treystir maður á þetta og fer að hitta  fleira fólk.“

Um tíu þúsund fá bólusetningu í vikunni, á föstudaginn verður bólusett með bóluefni Moderna og morgun fá um fimm þúsund bóluefni Astra Zeneca, en talsvert er um að fólk biðji um að fá aðra tegund bóluefnis, að sögn Sigríðar Dóru Magnúsdóttur, umdæmislæknis sóttvarna og framkvæmdastjóra lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. „Við höfum engar forsendur til að breyta um bóluefni, við verðum að fara eftir fyrirmælum sóttvarnalæknis,“ segir Sigríður Dóra. „Þegar það verður nóg af bóluefni þá er möguleiki á að það verði hægt að velja, En við getum ekki gert það í dag.“

Það var líka bólusett af krafti fyrir norðan í dag en þangað bárust um 2.300 skammtar í morgun. Þeim verður dreift víðs vegar um Norðurland en Akureyringar fengu bólusetningu á slökkvistöðinni.

„Þetta hefur bara gengið vel og eins og þið sjáið er fólk að mæta vel og er greinilega mjög fegið að það sé komið að þessu og ánægt að koma,“ segir Inga Berglind Birgisdóttir, yfirhjúkrunarfræðingur hjá HSN. „Þetta er mjög stór vika við erum að bólusetja hérna á slökkvistöðinni á Akureyri, rúmlega 600 í dag og 700 á morgun þannig að þetta er okkar stærsta vika hingað til.“

Einn þeirra sem fékk bólusetningu á Akureyri í dag var Ragnar Sverrisson. „Ég er búinn að hlakka til þessa dags lengi. Þetta er bara eins og jólin fyrir mér.“

Reiknar þú með að breyta eitthvað þínum högum eftir þetta? „Nei, alls ekki.“

Hulda Einarsdóttir sagði ólíklegt að hún myndi breyta venjum sínum í kjölfar þess að vera fullbólusett. „Við reynum að halda okkur bara til hlés eins og við höfum gert hingað til.“

Þú ert ekkert búin að bóka þér ferð til Spánar? „Nei ætli ég ferðist ekki bara innanlands í sumar.“