Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Alvogen stefnir Halldóri Kristmanssyni

07.04.2021 - 09:14
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Lyfjafyrirtækið Alvogen hefur stefnt Halldóri Kristmanssyni, fyrrum samskiptastjóra fyrirtækisins, vegna meints trúnaðarbrots í starfi.

Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag en stefnan var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

 Í fréttinni er fullyrt að Halldór hafi átt fund með Björgólfi Thor Björgólfssyni, aðaleiganda Novator, í nóvember í fyrra, en í stefnunni segir að þau samskipti séu trúnaðarbrot. Þá segja stjórnendur Alvogen að Halldór hafi brotið trúnaðar- og þagnarskyldu með því að senda upplýsingar á fjölmiðla. Er þess krafist að ráðningarsamningi við Halldór verði rift fyrirvaralaust og að hann greiði félaginu 8,5 milljónir króna. Þá er farið fram á að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda Halldórs gagnvart fyrirtækinu.

Í yfirlýsingu sem Halldór sendi á fjölmiðla í lok mars kom fram að hann hefði skorað á stjórnir Alvogen og Alvotech aða víkja Róberti Wessman, forstjóra Alvogen, úr starfi vegna stjórnarhátta hans og meintrar ósæmilegrar hegðunar í garð samstarfsfólks síns. Halldór Kristmannsson hefur starfað við hlið Róberts Wessman í tæpa tvo áratugi.

Stjórn Alvogen sendi í kjölfarið frá sér yfirlýsingu þar sem fram kom að starfshættir Róberts hefðu verið rannsakaðir og að niðurstaðan væri að ekki sé ástæða væri til að aðhafast frekar.