Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Ætti að afnema reglugerðina hið fyrsta

07.04.2021 - 21:03
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra ætti hið fyrsta að afnema reglugerðina sem skyldar fólk til dvalar í sóttkvíarhúsi og dómari hefur úrskurðað ólöglega. Þetta segir Sigríður Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, eftir að Landsréttur vísaði kæru sóttvarnalæknis í málinu frá dómi.

Sigriður segir ekki tilefni til að setja löggjöf sem heimili framsal á þeirri ákvörðun að skylda fólk til dvalar í sóttkvíarhúsi út frá þeim gögnum sem hún hafi séð. „Fyrstu viðbrögð ráðherrans ættu að vera að afnema reglugerðina hið fyrsta. Það væntanlega gerir hún og endurskoðar þá textann og aðferðirnar í nýrri reglugerð sem hún vill setja, sem varðar þá ekki skyldu til dvalar í sóttkvíarhúsi.“

Sigríður segir að ráðherra eigi fyrst og fremst að axla ábyrgð með því að fella reglugerðina úr gildi. En á ráðherra að íhuga stöðu sína eða segja af sér? „Ég kalla ekki eftir því,“ segir Sigríður.

Sigríður á sæti í velferðarnefnd Alþingis sem fékk sóttvarnalækni og heilbrigðisráðherra meðal annarra á sinn fundi í gær. „Ég hef nú kallað mjög eftir upplýsingum um það hvernig þessum málum er háttað: Hvað margir hafa orðið uppvísir að því, sem koma inn til Íslands, að brjóta heimasóttkvína? Hversu margir af þeim hafa reynst smitaðir og hversu margir af þeim hafa valdað því sem menn hafa viljað kalla hér hópsýkingu. Þetta eru grundvallarupplýsingar sem verða að liggja fyrir ætli menn að taka ákvörðun, þá með lagasetningu, um að frelsissvipta fólk í sóttkvíarhúsi til dæmis. Reyndar eru þetta upplýsingar sem eiga að liggja fyrir líka þegar menn eru að meta þörfina á sóttkví yfir höfuð. Þessar upplýsingar hef ég ekki ennþá fengið og ekki nefndin. Við reynum áfram að kalla eftir þessum upplýsingum og ég tel að þessar upplýsingar eigi að vera opinberar.“ Hún segir mikilvægt fyrir umræðuna að fólk hafi aðgang að upplýsingum um hvernig staðan er hverju sinni.