Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

76 prósent virkra smita eru á höfuðborgarsvæðinu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þótt smit hafi ekki verið jafnmörg síðan í lok mars hefur nýgengi engu að síður lækkað frá því á mánudag þegar það var 24 smit á hverja hundrað þúsund íbúa síðustu tvær vikur. Það er nú 22,6. 76 prósent þeirra sem eru með virkt smit eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu.

Kórónuveirufaraldrinum hér á landi hefur verið skipt upp í fjórar bylgjur.

Fyrstu bylgjuna mátti að mestu leyti rekja til ferðalaga Íslendinga í útlöndum. Hún var ekki keyrð áfram af einni veirutegund heldur mörgum; meðal annars frá Bandaríkjunum, Asíu og meginlandi Evrópu. Hún hófst með fyrsta smitinu þann 28. febrúar og lauk með hálfgerðri kveðjuathöfn þann 25. maí. 

Rúmlega 1.800 Íslendingar greindust með smit í þeirri bylgju og nærri 22 þúsund þurftu að fara í sóttkví. 

Við tóku nokkrar góðar vikur þar sem varla greindist nokkur maður með smit og Íslendingar gátu nokkuð um frjálst höfuð strokið og ferðuðust innanlands.

En svo kom önnur bylgjan í lok júlí sem stóð fremur stutt. Þegar mest lét greindust 12 utan sóttkvíar en smit utan sóttkvíar er góður mælikvarði á hvort samfélagssmit sé útbreitt eða ekki. 

Bylgjan var borin upp af veiru sem smitrakningateymi almannavarna gaf nafnið „græna veiran“. Hún fannst ekki í neinum alþjóðlegum gagnabanka sem benti til þess að hún ætti jafnvel uppruna sinn í Austur-Evrópu.

Þriðja bylgjan hófst með hvelli skömmu seinna. Til marks um það greindust þrír utan sóttkvíar um þann 3. september en 38 nokkrum dögum seinna. Mest greindust 53 utan sóttkvíar í þeirri bylgju. Það reyndist enda býsna erfitt að ráða niðurlögum þriðju bylgjunnar.

Líkt og í annarri bylgjunni var ein veirutegund fyrirferðarmest í þeirri þriðju. Henni var gefið nafnið „bláa veiran“  en hún greindist fyrst í tveimur frönskum ferðamönnum um miðjan ágúst. 

Mynd með færslu
 Mynd: Grafík/ Sigurður Kristján - RÚV

Fjórða bylgjan er síðan að mestu leyti rakin til „breska afbrigðisins“ svokallaða sem hefur verið helsta orsökin fyrir faraldrinum á meginlandi Evrópu.  Þann 23. mars sagði Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, að hann ætlaði ekki að leggja til harðari aðgerðir innanlands en honum snerist hugur daginn eftir þegar stórhertar aðgerðir voru boðaðar. Smitum hafði þá fjölgað og erfitt reyndist að rekja sum þeirra.

Stjórnvöld ætluðu sér að kæfa bylgjuna í fæðingu og aðgerðirnar virðast vera að skila sér. Færri greinast utan sóttkvíar en í fyrri bylgjum og í dag eru nánast jafn margir í sóttkví og einangrun. Nýgengi smita er tekið að lækka eftir að hafa náð mest 24 smitum á hverja hundrað þúsund síðustu vikur; það er nú 22,6. Ólíkt þeirri fyrstu og þeirri þriðju hefur smitstuðull ekki verið reiknaður út. „Það er frekar ónákvæmt og ekki mjög hjálplegt við að aðgerðir,“ segir Þórólfur Guðnason í svari til fréttastofu.

Það kann þó að hækka aftur á morgun eftir tölur dagsins þar sem alls greindust 11 innanlandssmit, þar af 6 utan sóttkvíar.  Fimm þeirra tengjast innbyrðis eftir hópsmit í Mýrdalshreppi.

Af þeim 132 sem eru með virkt smit nú eru 76 prósent búsettir á höfuðborgarsvæðinu eða 101 og enn eru tveir landshlutar veirulausir.  Enginn er í einangrun eða sóttkví á Norðurlandi vestra eða Vestfjörðum.  Aðeins 10 sem eru eldri en 50 ára eru með virkt smit og enginn 80 ára og eldri enda sá hópur nánast fullbólusettur. 

Líkt og í fyrri bylgjum er það fólk á aldrinum 30 til 39 sem er fjölmennasti hópurinn í einangrun eða nærri þriðjungur fólks með smit. Það vekur samt athygli að næst fjölmennasti hópurinn eru börn á aldrinum 6 til 12 ára. 29 á þeim aldri eru með virkt smit. Þetta má sennilega rekja til hópsýkinga sem hafa komið upp í grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu.

Frá því um miðjan júní á síðasta ári hafa 62 prósent allra smitaðra þegar verið í sóttkví við greiningu en fram að þeim tíma var hlutfallið 57 prósent. 

Fréttin hefur verið uppfærð